Seðlabankinn hækkar enn vexti þrátt fyrir litlar launahækkanir

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í morgun þrátt fyrir að markmið skammtímasamninga fyrir jól hafi verið að halda launahækkunum lágum í von um að það yrði til að vextir héldust óbreyttir, lækkuðu jafnvel. Vaxtahækkunin mun auka húsnæðiskostnað þeirra mikið sem eru með lán á breytilegum vöxtum. Og hækka verðlag þegar fyrirtæki velta auknum fjármagnskostnaði út í verðlagið.

Að baki samningunum fyrir jól lá spá um að verðbólgan á síðasta ári yrði 7,6% og síðan 5,6% á þessu ári. Samningsaðilar áttu fund með Ásgeiri Jónssyni Seðlabankastjóra í vonum að ná saman samningum sem ekki myndu leiða til enn frekari vaxtahækkana.

Nú segir Seðlabankinn að ástæðan fyrir hækkun vaxta sé versnandi verðbólguhorfur sem einkum megi rekja til launahækkana. Samt var samið almennt um hækkanir sem voru undir verðbólgu, þ.e. leiða til kaupmáttarrýrnunar. Aðeins allra lægstu taxtar fólks með lengstan starfsaldurs hækkuðu umfram verðbólguspár. Það virðist vera of mikið fyrir Seðlabankann. Hann þolir ekki að nokkur launamaður nái að verja laun sín fyrir verðbólgunni, markmið bankans er að kaupmáttarrýrnun launafólks greiði niður verðbólguna.

Ásgeir Brynjar Torfason kom að Rauða borðinu á mánudagskvöldið og ræddi einmitt um hver myndi bera kostnaðinn af verðbólgunni. Þar eru þrír aðilar sem koma til greina: Launafólk, fyrirtækin eða skattgreiðendur.

„Þegar verðbólgan er farin af stað, þá stöðvast hún ekki fyrr en ofangreindir þrír deiluaðilar neyðast til að sætta sig við útkomuna,“ segir Ásgeir Brynjar. „Ástæðurnar fyrir að verðbólgan fer af stað geta verið of öflug uppsveifla í hagkerfinu sem kallar á meira vinnuafl en fyrir hendi er og dregur þá upp laun eða hún getur verið af völdum hrávöruverðshækkana og orkuskorts sem lætur fyrirtækin hækka sitt verð – en þá vill launafólkið fá hærri laun til að bæta fyrir lækkun raunverulegra launa sinna. Þannig heldur verðbólgan áfram. Hefðbundna leiðin undanfarna áratugi, í skólabókunum hið minnsta, hefur verið að seðlabankar noti hamar stýrivaxtahækkana til að berja verðbólguna niður og keyra hagkerfið samhliða inn í samdrátt með harkalegum hætti, jafnvel með því að skapa atvinnuleysi í leiðinni.“

Og síðar: „Samt virðist efnahagsstefnan hérlendis fela þá ósanngirni í sér og verkfærum vaxtahækkana beitt miskunnarlaust og sem mest eða hraðast hérlendis sé horft til samanburðar á alþjóðavísu. Það að árangurinn við að ná niður verðbólgunni gangi ekkert betur hérlendis fyrir vikið virðist litlu máli skipta. Reikna má með að hækkunum lægstu launa og fjölgun þeirra heimila sem ekki ná að loka heimilisbókhaldinu ofan við núllið nú í lok mánaðar verði samt sem áður kennt um áframhaldandi íþyngjandi verðbólgu frekar en mistækri efnahagsstjórn Seðlabankans og hins opinbera.“

Sjá má og heyra viðtalið við Ásgeir Brynjar hér:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí