Stjórn efnahagsmála skapar lífskjarakrísuna

Efnahagurinn 2. feb 2023

Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum segir í Tímariti Sameykis sem nú er á leið til félagsfólks, að embættismenn sem vinna við verðstöðugleika hérlendis hafa haft uppi mörg orð og harkaleg síðastliðið eitt og hálfa árið um mikilvægi þess að launakröfur verði ekki of miklar og einnig um að hið opinbera megi ekki eyða of miklu í útgjöld. Hann segir einnig að afskipti seðlabankastjóra af utanlandsferðum almennings sé heldur ekki æskilegt tól í stjórn efnahagsmála.

„Ekki er mikið sagt opinberlega um hagnað og arðsemiskörfur fyrirtækja, hvort sem þau veita fjármálaþjónustu eða selja lífsnauðsynjar til almennings. Þetta misræmi veldur áhyggjum um úrlausn deilunnar.“

Þá segir Ásgeir Brynjar að svo virðist sem trúin á kenningar og líkön frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar ráða hinum efnahagslegu aðgerðum í deilum á vinnumarkaði af hálfu hins opinbera.

„Hækkanir stýrivaxta seðlabanka skerða beint lífskjör skuldsettra heimila. Það dregur lítið úr verðbólguþrýstingi og kælir ekki mikið þanið hagkerfi að láta fólk með húsnæðisskuldir berjast í bökkum og ekki ná endum saman í heimilisbókhaldinu. Reynslan síðustu fimmtán ár sýnir okkur að gjaldeyrishöft, skattkerfisbreytingar tengdar við lífskjarasamninga og ferðatakmarkanir hafa gagnast miklu betur við að bæta lífskjör 90% landsmanna og halda verðbólgu í skefjum. […] Afskipti seðlabankastjóra af utanlandsferðum eru þó alls ekki æskilegt tól efnahagsstjórnar, en stofnunin sem hann stýrir hefur öll tæki og upplýsingar til að fylgjast með flæði fjármuna ríkustu 10% landsmanna úr landi.“

Og ennfremur segir hann að aðferðin við að hemja verðbólguna með stýrivaxtahækkunum auki á vandann og skapi atvinnuleysi í leiðinni.

„Hefðbundna leiðin undanfarna áratugi, í skólabókunum hið minnsta, hefur verið að seðlabankar noti hamar stýrivaxtahækkana til að berja verðbólguna niður og keyra hagkerfið samhliða inn í samdrátt með harkalegum hætti, jafnvel með því að skapa atvinnuleysi í leiðinni. […] Nú í upphafi árs sjáum við víða um heim efnahagslegan samdrátt sem að líklega mun valda miklum skaða, sérstaklega á lífskjörum, til þess að berja niður verðbólguna. Raungögnin sýna okkur samt alls ekki að þeir sem hækki vextina meira en aðrir nái verðbólgunni hraðar niður.“

Frétt af vef Sameykis. Lesa má grein Ásgeir Brynjars Torfasonar Samhengi stýrivaxtahækkana, verðbólgu og launaþróunar.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí