Telur að kröfur Gráa hersins hafi kostað um 480 milljarða króna

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur sagði í viðtali við Rauða borðið telja að mál Gráa hersins gagnvart ríkinu um afnám skerðinga hefðu aldrei getað unnist. Og ef það hefði unnist hefði það orðið gríðar kostnaðarsamt, jafnvel kostað ríkið um 480 milljarða króna. Og hlutfallslega mest af þeim fjármunum hefðu runnið til þeirra aldraðra sem hafa það efnahagslega best.

Haukur sagði málið hefði ekki aðeins tapast, eins og fyrirséð hefði verið, heldur hafi tapast tími í réttindabaráttu eftirlaunafólks og aldraðar. Þessi hópur þurfi skýrari réttindabaráttu, því margt hefur breyst í samfélaginu sem í raun rýrir kjör hans og réttindi.

Haukur benti á að félags- og sjúkratryggingar ríkisins hefðu staðnað og verið vanræktar um áratugi og að gjaldtaka af almenningi við komur til heilbrigðisþjónustunnar yrðu sífellt algengari og gjöldin hærri.

Við þessar aðstæður hafa verkalýðsfélögin byggt upp eigin félags- og sjúkratryggingar, sem einungir eru fyrir félagsmenn þeirra. Þeir koma með reikninga fyrir útgjöldum sem þeir verða fyrir vegna hins götótta kerfis ríkisins – til stéttarfélaganna og fá þá greidda.

Þannig er lítil tryggingarvernd þeirra sem eru utan vinnumarkaðar falin fyrir fólkinu á vinnumarkaði og enginn er til staðar til að berjast fyrir hópinn sem býr við strípuð ríkiskerfin. Þetta er verst fyrir eldri borgara sem þurfa meira á tryggingakerfi að halda en aðrir og minna má á að skyldur ríkisins standa til þess að styðja þá sem mest þurfa á því að halda – og það eru eldri borgarar, auk öryrkja. Þetta er því öfugþróun sem verður að snúa við.

Haukur sagði að taka þyrfti til gagnrýninnar umræðu hvernig kerfi verkalýðshreyfingarinnar hafa í auknum mæti tekið að sér hlutverk ríkisins. Ríkið ver um 90 milljörðum í ellilífeyri, um 60 milljörðum í sjúkratryggingar – en sjóðir verkalýðshreyfingarinnar eru með um 100 milljarða árlega og lífeyrissjóðirnir greiða yfir 200 milljarða í lífeyri. Auk þessa eiga lífeyrissjóðirnir þrisvar sinnum meira en ríkið og sveitarfélögin samanlagt.

Kerfi verkalýðshreyfingarinnar eru því mikið sterkari og greiða meira út en ríkið – og munum að þau eru ríki í ríkinu; stjórnmálamenn geta aðeins haft óbein áhrif á starfsemi þeirra, þau ráða sér sjálf. Stjórnsýslufræðingar myndu segja að enginn nema opinberir aðilar megi taka að sér hlutverk ríkisins.

Haukur sagði vert að muna að almannatryggingakerfi einkennast að tvenns lags kerfum: annars vegar almennu lífeyriskerfi sem greiðir öllum jafnt og hins vegar af kerfi félagslegs stuðnings. Þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir 1969 var almennt kerfi hér á landi – en frá 1. jan. 2017 hefur einvörðungu verið kerfi félagslegs stuðnings. Þannig hefur kerfið breytt um eðli.

Sá sem er með góð eftirlaun getur ekki sagst eiga rétt á hæstu bótum, sem einvörðungu eru fyrir þá sem verst standa, með orðunum: „Það var samið um þetta 1969“, því það var alls ekki gert, þá var einfaldlega allt annað kerfi og ríkið má breyta um kerfi. Ríkið á líka að gera það, því lagaskyldur kveða á um stuðning við þá sem verr standa, en engar beinar skyldur eru gagnvart öðrum – hins vegar getur verið pólitískt samkomulag um það.

Nú þegar Grái herinn hefur tapað og öllum má ljóst vera að skerðingarnar í almannatryggingakerfinu , sem er kerfi félagslegs stuðnings, eru eðlilegar þá verður að segja fullum rómi að – minnkaðar skerðingar gefa þeim sem hafa meiri tekjur alltaf meira en þeim sem minna hafa: sá sem hefur 700 þús. í eftirlaun fær alltaf tæplega 10 sinnum meira en sá sem er með 100 þús. eftirlaun (þessi hlutföll halda sér hvað sem skerðingin minnkar mikið). Að minnka skerðingar mætir ekki þeim opinberu markmiðum að vinna gegn fátækt – og samtök eldri borgara ættu ekki að gera kröfu um hana.

Kröfur Gráa Hersins hafa ekki verið greindar af fjölmiðlamönnum. Þær fela í sér stórfelldan tilflutning fjármagns frá ríkinu til þess hluta eldri borgara sem best stendur. Hver eldri borgari með 700 þús. kr. eftirlaun ætti samkvæmt kröfunum rétt á um 20 milljón kr. greiðslu, sá sem hefði 100 þús. ætti rétt á um 2 milljónum og sá sem hefði 25 þús. eða minna frá lífeyrissjóði fengi ekki neitt. Í heildina gæti krafan (þótt það stæðist etv. ekki lögfræðilega) um eingreiðslu fjögur ár aftur í tímann numið 480 milljörðum, eða svipað og krafa Íbúðalánasjóðs.

Haukur sagði að kröfurnar sem nú ætti að gera vera:

1. hækka hæsta ellilífeyri og hafa hann jafnan fyrir sambúðarfólk og einyrkja, sem er sú aðgerð sem kostar ríkið minnst en nær mestum árangri gagnvart fátæktinni

2. setja upp almennt húsnæðisstuðningskerfi sem nái jafnt til allra sem hafa mikinn húsnæðiskostnað, en fella heimilisuppbótina niður á móti

3. taka upp almennt lífeyriskerfi þar sem allir fengju jafnt, þeir sem minnst hafa þá til viðbótar við sitt, – leiðir 1 og 3 hækka ellilífeyri um sömu krónutölu til allra. Nr. 3 er dýr leið. Síðan má

4. hækka frítekjumarkið, sem gefur næst tekjulægsta hópnum hámarks ellilífeyri. Það gefur jafna hækkun til þess hóps og þeirra sem betur standa, en skilur þá eftir sem hafa minnst. Þetta má réttlæta með því að fátækt nær líka til næst tekjulægsta hópsins.

Þetta eru verkefni í þjóðfélaginu sem við þurfum að vinna, sagði Haukur Arnþórsson í viðtali við Rauða borðið. Það má sjá og heyra í spilarnum hér að ofan.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí