Verðmunur á matvöru eykst við samanburð á kílóverði

Dýrtíðin 17. feb 2023

Í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á matvöru sem framkvæmd var þann 15. febrúar var meiri munur á verði milli verslana en áður en í þetta skiptið var áhersla lögð á að bera saman lægsta kílóverð á vörum. Meðalverð á 113 vörutegundum var lægst í Bónus, að meðaltali 6% frá lægsta verði en hæst í Iceland, að meðaltali 54% frá lægsta verði. Í um helmingi tilfella var yfir 60% munur á hæsta og lægsta verði eða í 57 tilfellum af 113 og þar af var yfir 100% munur á hæsta og lægsta verði í 32 tilfellum.

Meðalverð á vörukörfu sem inniheldur matvöru sem þarf til að matreiða sunnudagslæri með meðlæti ásamt forrétti og eftirrétti var 52% hærra í Heimkaup þar sem það var hæst, en hjá Bónus og Krónunni þar sem verðið var lægst. Lægsta kílóverð var tekið af öllum þeim vörum sem þurfti í matseldina.

Svipað meðalverð hjá Fjarðarkaupum, Nettó og Hagkaupum
Við skoðun á meðalverði á þeim 113 vörum sem könnunin náði til kemur í ljós að Bónus var með lægsta meðalverðið. Verð á vörum í versluninni var að meðaltali 6% frá lægsta verði. Því fleiri vörur sem eru langt frá lægsta verði í hverri verslun og því lengra sem verð á vörum er frá lægsta verði, því hærra verður gildið. Ef einhver verslun hefði verið með lægsta verðið á öllum vörum hefði viðkomandi verslun fengið gildið 0. Meðalverð í Krónunni reyndist næstlægst, að meðaltali 11% frá lægsta verði. Fjarðarkaup er að meðaltali 28% frá lægsta verði og Nettó og Hagkaup á svipuðum slóðum eða 30% frá lægsta verði.

Iceland var með hæsta meðalverðið og var verð á þeim vörum sem könnunin náði til að meðaltali 54% hærra í versluninni en lægsta verð. Verð í Heimkaup var að meðaltali 51% hærra en lægsta verði og 48% hærra í Kjörbúðinni.

Lítið úrval af ódýrari vörumerkjum getur haft mikil áhrif
Mikill munur var á hæsta og lægsta verði á einstökum vörum milli verslana, jafnvel þó borið hafi verið saman lægsta kílóverð á stórum hluta vara. Niðurstöðurnar sýna að framboð vara á mismunandi verðbili getur haft mikil áhrif á hversu dýr innkaupin reynast. Ef lítið úrval er af ódýrari valkostum af vörum í verslunum getur það haft töluverð áhrif.

Sem dæmi um mikinn verðmun má nefna 277% mun milli verslana á lægsta kílóverði af skinkuáleggi, 366% mun á lægsta kg verði á niðursoðnum kjúklingabaunum, 166% verðmun á haframjöli, 130% verðmun á frosnu hvítlauksbrauði og 82% verðmun á rúsínum.

Matarboðið 54% dýrara í Heimkaup en í Bónus og Krónunni

Verðlagseftirlitið setti saman vörulista með vörum sem þyrfti að kaupa til að halda matarboð þar sem boðið væri upp á lambalæri með sósu, kartöflugratíni og salati. Í forrétt væri rækjukokteill og eplapæ í eftirrétt. Lægsta kílóverð fáanlegt af hverri vöru í verslununum var skráð og til að auðvelda verðsamanburð var gert ráð fyrir að jafn mikið magn væri keypt í öllum verslununum. Í raunveruleikanum eru þó stærðir á pakkningum ólíkar sem hefði áhrif á verð vörukörfunnar en þá yrði afgangur af sumum þeirra vara sem keyptar yrðu inn, sem væri hægt að nýta seinna.

Krónan og Bónus voru með lægsta meðalverðið á matarkörfunni og voru verslanirnar að meðaltali 6% frá lægsta verði. Lægsta verð á matarkörfunni er það verð sem fæst með að leggja saman verð á þeim vörum sem ódýrastar voru, burtséð frá því hvar þær fengust og til að fá það verð þyrfti að fara í margar verslanir.

Nettó var að meðaltali 17% frá lægsta verði, Hagkaup og Kjörbúðin 28% frá lægsta verði og Fjarðarkaup 32%. Heimkaup var með hæsta verðið á matarkörfunni sem var að meðaltali 60% frá lægsta verði og Iceland var með næsthæsta verðið, að meðaltali 40% frá lægsta verði. Bónus var oftast með lægsta verðið á vörum í vörukörfunni, á 15 vörum af 25 en Heimkaup var oftast með hæsta verðið, á 15 vörum.

Sem dæmi um mikinn verðmun á einstaka vörum í vörukörfunni má nefna 48% mun á ódýrasta kg verði af frosnu lambalæri, 147% mun á ódýrasta kg verði af rauðkáli í dós, 150% verðmun á ferskri steinselju og 72% verðmun á 250 gr. öskju af sveppum. Þá var 93% munur á lægsta kg á frystum rækjum sem þurfti í forrétt, 178% verðmunur á blönduðu salati, 238% munur á kílóverði á grænum eplum og 63% munur á lægsta kílóverði af Nóa Siríus suðusúkkulaði milli verslana.

Mikill verðmunur á einstökum vörum

Sem dæmi um mikinn verðmun á einstaka vörum í vörukörfunni má nefna 48% mun á ódýrasta kg verði af frosnu lambalæri, 147% mun á ódýrasta kg verði af rauðkáli í dós, 150% verðmun á ferskri steinselju og 72% verðmun á 250 gr. öskju af sveppum. Þá var 93% munur á lægsta kg á frystum rækjum sem þurfti í forrétt, 178% verðmunur á blönduðu salati, 238% munur á kílóverði á grænum eplum og 63% munur á lægsta kílóverði af Nóa Siríus suðusúkkulaði milli verslana.

Um könnunina:
Könnunin nær til verðs á 113 matvörum. Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru sem er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann komi til með að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur/tilboðsverð af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Ýmsar aðferðir eru til að varpa ljósi á niðurstöður í verðkönnunum með mörgum vörum og verslunum. Til að skýra betur verð hjá þeim verslunum sem eru hvorki oft með hæsta né lægsta verð í verðkönnun og finna út meðalverð má reikna út hlutfallslegt frávik frá lægsta verði hverrar vöru. Þannig raðast verslanirnar eftir því hversu langt verð á vörum í könnuninni er að meðaltali frá lægsta verði.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Fjarðarkaupum, Kjörbúðinni, Heimkaupum og Hagkaupum.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Frétt af vef Alþýðusambandins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí