Verkbannsvopnið aldrei áður notað sem þvingunarvopn

Magnús M. Norðdahl sérfræðingur á sviði alþjóða- og vinnumarkaðsmála hjá ASÍ segir að verkbannsvopnið sé nú notað af Samtökum atvinnulífsins á algjörlega nýstárlegan hátt. Það hafi hingað til ekki verið til þess fallið að liðka fyrir samningaviðræðum. Heldur varið atvinnurekendur frá því aða þurfa að hafa ákveðinn hóp í vinnu sem ekki getur starfa vegna verkfalla annarra.

„Mér skilst að atvinnurekendur hafi notað verkbannsvopnið um fimmtíu sinnum í gegnum tíðina í kjaradeilum við verkafólk en það hefur aldrei náð til eins margra og í þetta skipti eða ríflega tuttugu þúsund þúsund manns. Komi til þess mun það hafa afar gífurleg áhrif á allt samfélagið.

Ég tel að þegar verkbanni er beitt með þessum hætti sé það ekki endilega til þess fallið að liðka fyrir samningaviðræðum. Það hefur jafnan verið hugsað sem vopn til þess að verja atvinnurekendur tjóni í verkföllum, það er að koma í veg fyrir það að þeir þurfi að hafa á launaskrá í fyrirtækjum sínum starfsfólk sem ekki getur gegnt venjulegum störfum sínum vegna þess að hluti starfsfólks er í verkfalli. En með þessum hætti kannast ég ekki við að því hafi verið beitt eða sem þvingunarvopni til að ná fram samningsniðurstöðu, því alla jafna eru það nú verkalýðsfélögin sem eru með kröfur en ekki atvinnurekendur,“ segir Magnús í viðtali við Vísi.

Allar verkfallsboðanir Eflingar í þrifum, á hótelum og öryggisgæslu hafa verið samþykktar með afgerandi hætti og háu þátttökuhlutfalli félagsmanna. Atkvæðagreiðsla á þvingunaraðgerðirnar sem SA vill beita eflingu með verkbanninu hófust í gær og mun þeim ljúka á morgun klukkan fjögur. Tæplega tvö þúsund félagsmenn SA munu fá að greiða atkvæði um beitingu verkbannsins sem mun að óbreyttu hefjast á hádegi fimmtudaginn 2. mars.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí