Vilhjálmur segir Ásgeir vera versta óvin launafólks

Dýrtíðin 8. feb 2023

„Seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi að loknum fundi peningastefnunefndar í dag verðbólgu vera versta óvin launafólks. Ég vil hins vegar segja að Seðlabankinn er versti óvinur launafólks, enda eru vaxtahækkanir Seðlabankans að valda launafólki og heimilum miklu meira vanda en verðbólgan sjálf!,“ skrifar Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins á Facebook.

Færsla Vilhjálms er samfelldur lestur yfir Ásgeiri Jónssyni Seðlabankastjóra eftir ákvörðun bankans að hækkar stúyrivexti:

„Enn og aftur kemur Seðlabankinn og kennir verkalýðshreyfingunni um og segir núna orðrétt: „Kjarasamningar voru miklu dýrari en við höfðum gert ráð fyrir.“ Eins og svo oft áður á að skella skuldinni á kjarasamninga launafólks þegar rökstyðja þarf hækkun á stýrivöxtum til að viðhalda okurvöxtum í íslensku samfélagi,“ skrifar Vilhjálmur.

Og heldur áfram: „Ruglið sem vellur upp úr forsvarsmönnum Seðlabankans er svo yfirgengilegt þegar þeir segja að þeir séu að „styðja“ við kjarasamninganna með því að hækka vextina. Það liggur algerlega fyrir að Seðlabankinn er að stefna heimilum og fyrirtækjum hér á landi í gríðarlegar ógöngur með þessu framferði sínu. Þurrkar upp ávinning af þeim kjarasamningum sem við erum að gera og leggur einnig gríðarlegar álögur á fyrirtækin með hækkun á fjármagnskostnaði þeirra.

Íslensk heimili skulda um 2.700 milljarða og ef 0,50% hækkun á skuldum heimilanna færist öll á skuldir þeirra þá nemur þetta 13,5 milljarða aukningu á vaxtakostnaði. Rétt er að geta þess að íslensk fyrirtæki á hinum almenna vinnumarkaði skulda 5.400 milljarða og ef þessi stýrivaxtahækkun skilar sér öll í hækkun vaxta til þeirra þá nemur það auknu vaxtabyrði fyrirtækja upp á 27 milljarða sem er 35% af kostnaði við þær launahækkanir sem samið var um á almennum vinnumarkaði.

Rétt er minna á að um eða yfir 600 milljarðar í íbúðalánum, sem bera fasta vexti í dag, koma til vaxtaendurskoðunar á næstu 12 til 24 mánuðum. Flest heimili festu vextina í kringum 4% en í dag standa lægstu óverðtryggðu vextirnir í 7,6% og á þá þessi 0,50% stýrivaxtahækkun eftir að koma til viðbótar.

Sem dæmi þá er heimili sem er með 50 milljónir óverðtryggt húsnæðislán í dag á 4% föstum vöxtum að greiða 166 þúsund í vaxtagjöld í mánuði en mun þurfa að greiða 333 þúsund þegar vaxtaendurskoðun kemur til framkvæmda ef vextir haldast óbreyttir næstu mánuði.

Þetta er algerlega galið og þessi 600 milljarða snjóhengja sem hangir yfir íslenskum heimilum skellur af fullum þunga á íslensk heimili á næstu 12 til 24 mánuðum ef vextir ekki lækka.

Að forsvarsmenn Seðlabankans skuli síðan tala um að verið sé að styðja við kjarasamninga og almenning í landinu er svo mikil þvæla að það er klárlega rannsóknarefni!

Seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi að loknum fundi peningastefnunefndar í dag verðbólgu vera versta óvin launafólks. Ég vil hins vegar segja að Seðlabankinn er versti óvinur launafólks, enda eru vaxtahækkanir Seðlabankans að valda launafólki og heimilum miklu meira vanda en verðbólgan sjálf!“ lýkur Vilhjálmur lestri sínum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí