Bjarni reynir að rugla umræðuna

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur haldið því fram að undanförnu að laun á Íslandi hafi hækkað umfram verðlag. Þetta er alrangt. Frá miðju síðasta ári hefur launafólk mátt þola mikla kjaraskerðingu og fram undan er enn meiri skerðing í mikilli og vaxandi verðbólgu. Verðbólgu sem er knúin áfram af hækkun fyrirtækjaeigenda á vöru og þjónustu langt umfram tilefni.

Bjarni hefur að undanförnu sagt að launahækkanir á Íslandi séu ósjálfbærar og vísað til þess að launavísitalan hafði í desember hækkað um 12,4% tólf mánuðina á undan. Þá hafði verðlag hækkað um 9,6% á sama tíma. Í janúar, mánuði síðar, var hækkun launavísitölunnar hins vegar 8,6% í 9,9% verðbólgu.

Bjarni er því augljóslega að velja sér dæmi til að halda aftur af launahækkunum. Hann kýs að nefna eitt dæmi sem er á skjön við þróunina, en sleppir því að tala um dæmin sem sýna betur hvert stefnir: Launafólk er að greiða niður verðbólgu með kaupmáttarrýrnun. Eigendur fyrirtækja sem stjórna verðlagningu á vöru og þjónustu eru að knýja áfram verðbólgu sem er umfram launahækkanir og sviptir því fólki kaupmætti sínum. Og ríkið er síðan enginn. eftirbátur, skrúfar um verðlag með hækkun á gjöldum.

Það, hversu dæmi Bjarna er sérvalið, sést vel á grafi sem sýnir þróun launa samkvæmt launavísitölu og verðlags samkvæmt neysluvísitölu frá ársbyrjun 2022. Grafið sýnir hækkun tólf mánuðina á undan.

Það afhjúpar vangetu fjölmiðla og fræðasamfélagsins að ráðherra skuli komast upp með að endurtaka sí og æ þetta eina frávik sem er svo augljóst á þessu grafi en neita að ræða það sem grafið sýnir, að launafólk er að borga fyrir verðbólguna með kjararýrnun svo fyrritækjaeigendur geti varið sig með verðhækkunum langt umfram tilefni. Að ekki sé talað um þingheim, sem sættir sig við þessa framsetningu ráðherrans.

Grafið sýnir að um mitt síðast ár hófst kjaraskerðing launafólks. Þrátt fyrir 6,7% hagvöxt, þrátt fyrir 3,7% hagvöxt á mann.

Ef launafólk á að halda sínum hlut í 10,2% verðbólgu og 3,7% hagvexti á mann þyrftu laun að hækka um 14,3% yfir árið. Launavísitalan hækkaði hins vegar aðeins um 8,6% í janúar.

Í janúar voru launagreiðslur um 140 milljarðar króna samkvæmt staðgreiðsluskilum. Ári fyrr voru þær 124,5 milljarðar króna, Ef launagreiðslur hefðu hækkað eins og verðlag á þessum tíma, 9,9%, og eins og landsframleiðslan, 6,7%, hefðu launagreiðslurnar orðið 146 milljarða króna. Það vantaði því 6 milljarða króna upp á launagreiðslurnar svo launafólki hefði haldið sínum hlut í þjóðarkökunni. Það má áætla að séu verðmætin sem verðbólgan og of litlar launahækkanir til launafólks hafi flutt frá launafólki til eigenda fyrirtækja, í einum mánuði. Og Bjarna finnst þetta ekki nóg.

Verðbólgan er ógnarafl sem grefur undan kjörum launafólks, sem getur ekki velt hækkunum á aðföngum út til launagreiðenda með því að hækka laun sín þegar þörf er á.

Og það er enginn vandi að sjá af opinberum gögnum hversu hratt og miskunnarlaust þetta leikur launafólk. Bjarni Benediktsson efnahagsráðherra kýs hins vegar að rugla umræðuna, skapa upplýsingaóreiðu, til byggja undir stefnu sína sem er að nýta verðbólguna til að skerða kjör alls almennings og færa verðmæti til eigenda fyrirtækja.

Þetta er það sem er að gerast þessa dagana, vikur og mánuði. Og ætti auðvitað að vera fyrsta frétt á öllum miðlum. Þær gætu byrjað svona: Í dag tapaði launafólk 200 milljónum krónum til viðbótar vegna kaupmáttarskerðingar, sem knúin er áfram að hækkunum fyrirtækjaeigenda á vöru og þjónustu. 200 m.kr. bættust við í dag við þær ógnarupphæðir sem fyrirtækjaeigendur hafa náð af launafólki á undanförnum vikum og mánuðum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí