Er ekki að fara að ganga á Esjuna og ekki skúra heima

Gunnhildur Hlöðversdóttir greindist með lungnaþembu árið 2015 þá búin að vera hraust alla tíð og virk á vinnumarkaði. Hún telur að sjúkdómurinn hafi verið búinn að malla í mörg ár þar til hún var flutt með sjúkrabíl í andnauð á bráðadeild landspítalans. Hún var sett í ytri öndunarvél í nokkra daga sem hjálpaði henni að anda og lá á lungnadeild í nokkra daga. Þar var hún greind en segist ekki hafa tekið greiningunni nægilega alvarlega í fyrstu. Hún fór strax aftur í fulla vinnu, gat svo minnkað eitthvað við sig um tíma en svo fór að hún varð að hætta.

„Maður vill geta hætt að vinna á sínum eigin forsendum” segir Gunnhildur sem segir það hafa verið hræðilegt að vera sagt að nú væri bara kominn tími til að hætta að vinna og fara að huga að heilsunni.” Það var árið 2019, Gunnhildur orðin sextug og því ekki mjög langt í eftirlaun.

„Þá er staðan þannig að maður heldur bara að allt sé búið. Hætt að vinna, komin með sjúkdóm og vissi í raun ekki hvert ég gæti leitað mér upplýsinga. Ég vildi alls ekki leita mér upplýsinga hjá samtökum um lungnasjúkdóma segir hún en Gunnhildur gat ekki hugsað sér að vera einhver sjúklingur. Hún var þó dregin þangað á endanum og er varaformaður samtakanna í dag.

Gunnhildur þurfti að venja sig af því að gera allt sjálf og læra að biðja um aðstoð. Hún lærði einnig að hún þyrfti að huga að heilsurækt og hefur fengið endurhæfingu hjá Reykjalundi nokkrum sinnum.

„Það gerist svo margt við það að fá þennan sjúkdóm segir hún, maður missir þrótt, á erfitt með að setja í þvottavél, ganga upp stiga og hvað eina.

Gunnhildur þurfti að glíma við sína eigin fordóma fyrstu árin og átti erfitt með að kingja því að þurfa að fá súrefni. Hún ætlaði aldrei að verða þessi sem dregur á eftir sér súrefniskút. Það tók tíma en hún jafnaði sig þó á því enda fann hún að hún gæti gert mun meira með auka súrefni en án þess. Hún segist sakna þess að ekki séu súrefniskútar fyrir lungnasjúka í sundlaugum landsins því vatnsleikfimi sé svo frábær leið til að byggja sig upp. Það sé eitt af mörgu sem þurfi að skoða til að bæta lífsgæði lungnasjúkra.

„Það er mikill misskilningur að allir lungnasjúklingar séu fyrrverandi reykingamenn” segir Gunnhildur, „sumir eru hreinlega með meðfædda lungnasjúkdóma, fólk sem hefur unnið með slæm efni, bændur og fleiri stéttir. En það eru fordómar gagnvart fólki með lungnasjúkdóma og við í félaginu höfum mikið velt því fyrir okkur hvers vegna”.

Uppgangur mæði og þreyta eru meðal þeirra einkenna sem lýsa fyrstu stigum sjúkdómsins en lungnaþemba er lífshættulegur sjúkdómur. Gunnhildur segir fólk með þennan sjúkdóm þurfa að hugsa vel um sig, vera í góðu formi, borða hollt og sofa reglulega svo hægt sé að lifa góðu lífi.

„En ég er ekki að fara að ganga á Esjuna” segir hún og bætir við „ og ég get ekki skúrað heima hjá mér nema sitja á rassinum og mjaka mér áfram með tuskuna”.

Hún er afar ósátt við þá stefnu Reykjavíkurborgar að draga úr heimaþjónustunni á þeim forsendum að fólk eigi að gera meira sjálft. „Fólk er ekki öryrkjar að fá heimaþjónustu að gamni sínu”. Þá er skortur á starfsfólki og virðist ekki mega ráða inn fleira fólk. Vegna manneklu hjá borginni fékk Gunnhildur gólfin ekki skúruð hjá sér fyrir jólin og segir hún þjónustuna hjá Reykjavíkurborg vera til háborinnar skammar.

Þá gagnrýnir hún heilsugæsluna og ástandið í heilbrigðiskerfinu. „Ég er búin að heyra allt of margar sögur af því að fólk hafi orðið mjög veikt vegna þess að heilsugæslan bregst ekki við eða ætlast til að fólk með lungnaþembu sjái bara um sig sjálft ef það fær sýkingar eða pestir”.

Covid var mikil áskorun fyrir fólk með þennan sjúkdóm en Gunnhildur hefur blessunarlega sloppið við veiruna hingað til enda segir hún flesta lungnaþembusjúkling vera mikið á sprittinu og passa sig vel varðandi mannamót. Erfiðustu áskorunina segir hún þó vera það að þurfa að hægja á sér.

María Pétursdóttir ræddi við Gunnhildi í innslaginu Sjúkrasögur á Samstöðinni miðvikudaginn 23. mars.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí