Á miðvikudaginn lýkur kosningum til stjórnar VR. Þá kemur í ljós hvort verður formaður næstu tvö árin, Ragnar Þór Ingólfsson eða Elva Hrönn Hjartardóttir. En samhliða formannskjörinu er kosið í stjórn félagsins og þótt þar sé kosið á milli fólks má greina þar nokkra flokkadrætti, hvort frambjóðendur styðji Ragnar Þór eða ekki.
Í stjórn VR eru átta sem kosin voru í fyrra og munu sitja áfram: Harpa Sævarsdóttir ritari stjórnar,, Bjarni Þór Sigurðsson, Fríða Thoroddsen, Jónas Yngvi Ásgrímsson, Selma Björk Grétarsdóttir, Sigríður Lovísa Jónsdóttir, Sigrún Guðmundsdóttir og Þorvarður Bergmann Kjartansson. Þetta fólk hefur unnið með Ragnari Þór og mun sætta sig ágætlega við að gera það áfram.
Þarna eru fimm konur og þrír karlar. Auk formanns verða nú kosnir sex aðalmenn og þrír til vara. Í VR gilda reglur um kynjaskiptingu svo þau sem ná kjöri munu skiptast eins jafnt milli kynja og hægt er.
Af þeim sem eru í framboði má ætla að afstaðan til Ragnars Þórs skiptist svona:
Fjórir af fimm stjórnarmönnum sem eru í kjöri má segja að séu stuðningsfólk Ragnars Þórs, þau Helga Ingólfsdóttir, Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir, Sigurður Sigfússon og Þórir Hilmarsson.
Af þeim sem bjóða sig fram í fyrsta sinn má ætla að fjögur styðji Ragnar Þór. Jóhanna Gunnarsdóttir segir svo í framboðslýsingu sinni og leiða má að því likur að það sama eigi við um Nökkva Harðarson, Þorstein Þórólfsson og Ævar Þór Magnússon. Flokka mætti þetta fólk sem almenna verkalýðssinna.
Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir, varaformaður stjórnar, hefur ekki alltaf stutt Ragnar Þór, verður ekki sökuð um róttæka verkalýðsbaráttu. Það má flokka Völu Ólöfu Kristinsdóttur og Árna Konráð Árnason á svipuðum slóðum og Svanhildi.
Ólafur Reimar Gunnarsson var í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna en var settur af 2019 í kjölfar harðar gagnrýni Ragnars Þórs á stjórn sjóðsins. Ólafur er því sannarlega ekki stuðningsmaður Ragnars Þórs. Og það verður heldur ekki sagt um Sigríði (Sirrý) Hallgrímsdóttur, sem er varamaður í stjórn VR og sækist nú eftir sæti í stjórn. Sirrý er grjóthörð Sjálfstæðisflokkskona, utarlega til hægri í þeim flokki.
Jennifer Schröder er stuðningskona Elvu Hrannar Hjartardóttur frambjóðanda til formanns. Og þó Halla Gunnarsdóttir hafi ekki lýst yfir stuðningi við Elvu Hrönn þá eru hún örugglega ekki stuðningskona Ragnars. Halla er fyrrum framkvæmdastjóri ASÍ og sagði upp þegar Drífa Snædal sagði af sér vegna ósættis við Ragnar Þór, Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann Eflings og fleiri innan hreyfingarinnar.
Gabríel Benjamin var trúnaðarmaður á skrifstofu Eflingar og var sagt upp ásamt öðrum í fjöldauppsögn. Hann er harður andstæðingur Sólveigar Önnu og hefur gagnrýnt Ragnar Þór fyrir að fordæma ekki þær uppsagnir.
Hætt er við því að ef Elva Hrönn nær kjöri að hún setjist í stjórn sem fylgir Ragnari Þór. Til að vega á móti því þyrfti hún að ná félögum sínum úr Vg með sér og sérlegum andstæðingum Sólveigar Önnu og svo þeim frambjóðendum sem eru sannarlega til hægri.