Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir á Facebook að þegar fjölmiðlar biðja fulltrúa bankanna um að spá um stýrivaxtaákvarðanir, þá sé það líkt og að spyrja glæpagengi hvort fækka eigi eftirlitsmyndavélum í búðum. Í báðum tilvikum séu svörin fyrirsjáanleg.
Vilhjálmur deilir frétt RÚV þar sem rætt var við Unu Jónsdóttur, forstöðumann hagfræðideildar Landsbankans. Hún segir stýrisvaxtahækkun óhjákvæmilega.
Hér fyrir neðan má lesa pistil Vilhjálms í heild sinni.
„Eins og alltaf þá hafa allir greiningaraðilar bankanna „spáð“ stýrivaxtahækkun þegar styttist í vaxtaákvörðunardag hjá Seðlabankanum.
Það er nú ekki beint hægt að segja að fulltrúar bankakerfisins séu hlutlausir þegar þeir standa á öskrum og hvetja Seðlabankann til að hækka vexti. Enda hafa stýrivaxtahækkanir Seðlabankans skilað viðskiptabönkunum góðum ávinningi í auknum vaxtatekjum vegna aukins vaxtamunar.
Það er ótrúlegt að sjá hvernig fulltrúar viðskiptabankanna tala upp stýrivaxtahækkanir og það þrátt fyrir að þeir séu að spá lækkun á verðbólgu.
Magnað að sjá fjölmiðla ætíð kalla eftir áliti frá fulltrúum bankanna þegar verið er að spá fyrir um stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans. Þetta væri svipað og að leita til glæpagengja sem stela úr búðum hvort fækka eða fjölga eigi eftirlitsmyndavélum í búðum. Við vitum hvert svar glæpagengja yrði.“