Hvellskýrt að allar forsendur kjarasamninga eru kolbrostnar

Dýrtíðin 22. mar 2023

„Eftir þessa stýrivaxtahækkun upp á 1% þá er orðið hvellskýrt að allar forsendur kjarasamninga eru kolbrostnar enda var það mat samningsaðila að kjarasamningarnir væru að stuðla að lækkun vaxta,“ skrifar Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins á Facebook.

Vilhjálmur bendir á að frá því gengið var frá kjarasamningum 3. desember 2022 hafa vextir Seðlabankans hækkað um 1,75% og standa nú í 7,5%

„Það er orðið ljóst að Seðlabankanum mun á endanum takast að rústa íslenskum heimilum og þurrka upp alla aukningu á ráðstöfunartekjum heimilanna sem náðst hefur í kjarasamningum liðinna ára með þessari eyðileggingar-herferðar stefnu sinni,“ skrifar Vilhjálmur.

Og heldur áfram: „Við skulum hafa það hugfast að þessar vaxtahækkanir virka ekkert öðruvísi en skýstrókur sem sogar burt allt ráðstöfunarfé heimilanna og færir til fjármagnseigenda og bankastofnana. Þannig virka vaxtahækkanir, færa fé frá skuldsettum heimilum yfir til fjármálakerfisins.

Þau heimili sem eru með breytilega húsnæðisvexti hafa strax fundið fyrir þessum vaxtahækkunum á liðnum misserum og nemur sú hækkun á vaxtabyrði tugum þúsunda ef ekki vel á annað hundrað þúsund á mánuði.

Við skulum heldur ekki gleyma þeirri snjóhengju sem mun skella á þeim heimilum á næstu mánuðum sem eru með fasta vexti en þessi lánastabbi nemur um 630 milljörðum. En vaxtaendurskoðun mun koma til framkvæmda af fullum þunga á þessu ári og því næsta þar sem vaxtabyrði mun aukast gríðarlega með skelfilegum afleiðingum fyrir heimili þessa lands.

Við þessar vaxtahækkanir kemur í ljós svo ekki verður um villst hin ofboðslega skaðsemi verðtryggingar enda munu viðskiptabankarnir vísa öllum lántökum sem ekki geta staðið skil á óverðtryggðum lánskjörum yfir í verðtryggð húsnæðislán. Með öðrum orðum Seðlabankinn myndi ekki geta hækkað stýrivextina svona mikið nema vegna þess að verðtryggð lán eru í boði. Málið er að greiðslugeta og greiðsluþol heimilanna er takmörkunum háð og þeir myndu aldrei hækka vextina svona mikið nema vegna þess að þeir vita að bankakerfið mun vísa öllum sem ekki geta greitt af óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð lán.

Það er reyndar grátbroslegt í ljósi þess að þetta er 12. stýrivaxtahækkun Seðlabankans að hlusta á rökstuðning bankans fyrir þessum miklu hækkunum en hann er síbreytilegur og heldur oft á tíðum ekki vatni. Hins vegar er aðalmálið eins og hefur komið fram hjá Seðlabankanum að það sé „ekki hægt“ að vera með neikvæða raunvexti. Á mannamáli þýðir það að enn og aftur slær Seðlabankinn skjaldborg utan um fjármagnseigendur og fjármálaöflin á kostnað almennings. Það er sorgleg staðreynd enda hefur sagan í fortíð og nútíð sýnt okkur að Seðlabankinn og stjórnvöld eru ætíð tilbúin að slá skjaldborg utan um fjármálakerfið á kostnað almennings.

Það er ekki bara að greiðslubyrði húsnæðislána sé að hækka gríðarlega heldur hefur allt annað hækkað mikið á liðnum misserum. Matvara, tryggingar, dagvistunargjöld, bifreiðagjöld, fasteignaskattar og svona mætti lengi telja.

Það er sorglegt að sjá hvernig Seðlabankinn slátrar þeim ávinningi sem við töldum okkar vera að ná í síðasta kjarasamningi og því er það mitt persónulega mat að verkalýðshreyfingin eigi að slíta öllum viðræðum við Samtök atvinnulífsins sem eru komnar af stað enda tilgangslaust að vinna að langtímasamningi á sama tíma og allir varpa kostnaðarhækkunum á herðar launafólks, neytenda og heimila.

Nú er nóg orðið nóg í mínum huga!“ endar Vilhjálmur messu sína

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí