Katrín þvær hendur sínar af vopnvæðingu lögreglu

Umboðsmaður Alþingis sá ástæðu til að krefja forsætisráðherra svara í febrúar vegna innleiðingar dómsmálaráðherra á rafvarnarvopnum innan lögreglunnar og hvort í henni fælist mikilvæg stefnumörkun. Ef um mikilvæga stefnumörkun væri að ræða eins og forsætisráðherra hafði raunar haft orð á hefði dómsmálaráðherra átt að taka málið upp á ríkisstjórnarfundi til samráðs.

Katrín Jakobsdóttur var ekki fyrir fram kunnugt um áætlanir dómsmálaráðherra um að rafvopnavæða lögregluna fyrr en hún las það í blöðunum og setti umboðsmaður spurningarmerki við vinnulag ráðherrans þegar kæmi að mikilvægu samráði.

Svar hefur borist umboðsmanni undirritað af þeim Páli Þórhallssyni og Daníel Frey Birkissyni fyrir hönd forsætisráðherra en í því er tíundað hvernig ráðherranefndir starfa og hvernig ráðherra skuli tryggja verkaskiptingu og ráðgjöf eftir þörfum. „Farsælt ríkisstjórnarsamstarf snýst að stórum hluta um að ráðherrar gæti þess að bera upp í ríkisstjórn mikilvæg mál eða mál sem eru þannig vaxin að samráðherrar þurfa að vita af þeim tímanlega og fá tækifæri til að ræða þau á vettvangi ríkisstjórnar. Hingað til hefur ekki verið þörf á sérstöku verklagi umfram það sem lýst hefur verið. Miðað við óbreytta stjórnskipan er einnig vandséð að lengra verði gengið í því efni.“ segir í bréfinu.

Framhald málsins er því nú aftur til skoðunar á borði umboðsmanns.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí