Niðurstaða kosninga um miðlunartillögu Ástráðs Haraldssonar setts ríkissáttasemjara var að 85% Eflingarfólks samþykkti tillöguna og 99% þess atkvæðamagns fyrirtækjaeigenda í Samtökum atvinnulífsins. Þar með er tillagan orðin að kjarasamningi og Eflingarfólk mun fá afturvirkar launahækkanir frá 1. nóvember um næstu mánaðamót.
Miðlunartillagan var samhljóma þeim samningum sem Starfsgreinasambandið gerði í byrjun desember. Þó fá herbergisþernur hækkun um einn launaflokk umfram samningana SGS og bílstjórar hjá Samkipum, Olíudreifingu og Skeljungi fá hækkun á álagi, en þetta eru hóparnir sem fóru í verkfall.
Bæði forysta SA og Eflingar studdu framlagningu tillögunnar og kemur því niðurstaðan ekki á óvart. Næst mætir þetta fólk til kjarasamninga í haust en samningurinn rennur út í lok janúar á næsta ári.
Eflingarfólk fær greidda hækkun síðustu fimm mánaða um næstu mánaðarmót. Í tilfelli herbergisþerna verða það um 222 þús. kr. miðað við dagvinnulaun.