Samninganefndir BSRB, BHM og Kennarasambandsins hafa verið lokaðar inn í karphúsinu undanfarna daga og vikur. Og ekki yfir miklu. Stefnt er á skammtímasamninga. Tilboð ríkis og sveitarfélaga eru í takt við samninga Starfsgreinasambandsins, iðnaðar- og verslunarmanna og segja lítið svigrúm til að bæta þar nokkru við.
Það sem er á borðinu er 8,8% hækkun upp að 518 þús. kr. á mánuði. Ríkið vill að eftir það dragi úr hækkun þar til komið er að 6,75% og að það verði hækkunin á meðallaun og þar yfir. Í 10,2% verðbólgu er ljóst að þetta yrðu samningar um kaupmáttarrýrnun nema verðbólgan gefi mikið og snöggt eftir.
Samtök opinberra starfsmanna vildu fá eitthvað meira en veikar launahækkanir út úr þessum samningum, betri framkvæmd á styttingu vinnutímans frá síðustu lotu og skref í átt að jöfnun launa milli markaða. Þar sem stefnt er að skammtímasamningi rúmar hann ekki mikið til viðbótar, nema þá umorðun fyrri yfirlýsinga um markmið. Sem flestar hafa reyndar verið sviknar af stjórnvöldum.
Undanfarna daga hefur því mest verið deilt um hækkun launa. Og þá einkum um hvort hin betur launuðu eigi að fá minni hlutfallslega hækkun en þau sem eru á lægri launum. Eins og staðan er nú fær sá sem er með 500 þús. kr. á mánuði 44 þús. kr. hækkun en sá sem er með milljón krónur á mánuði fengi 67.500 kr. Krafa hinna betur launuðu er að 8,8% hækkunin gangi upp launastigann og sá með milljónina fái 88 þús. kr. hækkun.
Í upphafi voru samtök opinberra starfsmanna tilbúin í skammtímasamning á grunni samnings SGS. En eftir því sem tíminn hefur liðið hefur orðið ljóst að bjartsýnar verðbólguspár sem lágu til grundvallar þess samnings eru brostnar. Það sem var ásættanlegt í nóvember er það alls ekki í mars.
En samninganefndirnar upplifa stöðuna þrönga. Með því að fallast á skammtímasamninga eru samtökin í raun að draga úr möguleikum á að beita verkföllum, eins og sást á verkföllum Eflingar. Innan skamms tíma þurfa launahækkanir að verða þess meiri til að bæta upp kostnað við verkföll.
Og það er vegna þessa sem teygst hefur úr þessum viðræðum. Eftir því sem tíminn líður verður tilboð ríkisins ókræsilegra fyrir launafólk. En að sama verður ólíklegra að hægt sé að kreista eitthvað umfram út úr ríkinu.