Ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins kynntu nú síðdegis fjármálaáætlun. Áætlunin sjálf hefur ekki verið birt opinberlega. Á blaðamannafundi sem var haldinn fyrr í dag boðaði ríkisstjórnin „aðhald í rekstri og auknar skatttekjur“. Meðal þess sem ríkisstjórnin hyggst gera til að auka skatttekjur er að hækka skatt á lögaðila, þar með talin fyrirtæki, úr 20 prósentum í 21 prósent.
Fyrirtæki á Íslandi borga mjög lítinn skatt og munu áfram gera það. Bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi borga fyrirtæki 25 prósent skatt. Ísland líkist helst Austur-Evrópu og Arabalöndum hvað varðar fyrirtækjaskatt.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir á Facebook fjármálaáætlunin sýni stefnu ríkisstjórnarinnar að „beita ríkisfjármálunum með markvissum hætti til að slá niður verðbólguna með aukinni tekjuöflun, auknu aðhaldi og frestun framkvæmda“.
Katrín heldur áfram og segir: „Á sama tíma er staðinn vörður um þann árangur í eflingu almannaþjónustu sem ríkisstjórnin hefur forgangsraðað á undanförnum árum. Við styðjum áfram sérstaklega við þá hópa sem síst geta mætt áhrifum hærri verðbólgu líkt og við höfum áður gert með stuðningsaðgerðum stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur og á liðnu ári, með eflingu barnabóta og húsnæðisstuðnings og hækkun örorkulífeyris.“
Katrín segir að fyrrnefnd hækkun skatts fyrirtækja verði einungis tímabundin. „Sú tekjuöflun sem við ráðumst í mun fyrst og fremst beinast að þeim geirum efnahagslífsins sem eru vel aflögufærir. Þannig verður t.d. tekjuskattur lögaðila hækkaður tímabundið vegna ársins 2024 um eitt prósentustig, fiskeldisgjald og veiðigjöld hækkuð, gjaldtaka aukin í ferðaþjónustu og tekið verður upp varaflugvallargjald.“
Hér fyrir neðan má sjá mynd frá hægrisinnuðu hugveitunni Tax Foundation sem sýnir fyrirtækjaskatt á heimsvísu.