Segir forystu sjómanna tvístraða og auma

Ingi Þór Hafdísarson sjómaður segir meginástæðu þess að sjómenn felldu tíu ára kjarasamning, sem forysta sjómanna gerði við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, vera að samkvæmt honum greiddu sjómenn sjálfir sinn viðbótarlífeyrissparnað, öfugt við allar aðrar stéttir. Samkvæmt samningnum lækkaði skiptaprósentan og þar með hlutur sjómanna til að fjármagna að mestu greiðslu inn á séreign.

Sjómenn innan Sjómannasambandsins felldu samninginn með miklum meirihluta. 67 prósent greiddu atkvæði gegn samningunum en 32 prósent vildu samþykkja hann. Vélstjórar innan VM felldu samningin líka. Þar samþykktu 38 prósent samninginn og 60 prósent felldu. En skipstjórar og stýrimenn innan Félags skipstjórnarmanna samþykktu samninginn naumlega, með 55 prósentum gegn 44 prósent.

Kjaradeilur sjómanna við útgerðina hefur litlu skilað á undanförnum árum. Hvorki formlegir samningar né barátta fyrir réttu fiskverði, en stórútgerðin selur sjálfri sér aflann, oft á verði sem er langt undir því sem kalla mætti markaðsverð. Og útgerðin ákveður verðið einhliða.

Ingi Þór gerði uppreisn gegn þessu þegar hann var stýri­maður á rækju­skip­inu Berg­lín fyrir bráðum þremur árum. Þá sigldi hann með tóm­an bát frá Sigluf­irði til Sand­gerðis vegna út­borg­un­ar sem var 35% lægri en samið hafði verið um. Útgerðin hafði einhliða lækka verðið.

Sjómenn hafa verið samningslausir í þrjú ár. Síðasta verkfall þeirra rann út í sandinn, skilaði litlu sem engu. Ingi Þór segist efast um að rétt hafi verið staðið að kosningum um kjarasamninginn sem þá var gerður. Niðurstaðan hafi komið sér og flestum á óvart. Samningurinn var samþykktur þrátt fyrir mikla andstöðu meðal sjómanna.

Höfnun sjómanna á kjarasamningnum nú er því liður í langri sögu. Ingi Þór segir sjómenn hafa misst traust á forystu sinni. Aðspurður segir hann vandann ekki liggja í að hluti sjómannafélaganna sé innan Alþýðusambandsins en hluti utan heldur frekar í því að það vanti forystufólk sem sjómenn treysti.

Það hafi sést í undanförnum samningum að útgerðin mætir vel skipulögð og samhent til samninga en sjómenn sundraðir og veikir. Og útgerðin veit og finnur hvar mestu veikleikarnir eru og sækir þangað, mótar samningana með þeim sem gefa mest eftir. Ingi Þór segir að í dag sé það Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambandsins.

Ingi Þór segir að kjarasamningarnir hafi gefið skrifstofufólkinu í sjómannafélögunum mest. Hækkun kauptryggingar var eiginlega það eina sem útgerðin samþykkti. En kauptryggingin skiptir sjómenn litlu máli. Hún er hins vegar grunnurinn að launum fólksins á skrifstofum sjómannafélagana, þar sem menn eru á bátsmannshlut miðað við kauptryggingu.

Það horfir því ekki vel í kjarabaráttu sjómanna. Sjómenn hafa hafnað samningi sem forysta þeirra kallaði tímamótasamninga. Fall samningana dregur fram djúpt vantraust sjómanna á forsytu sinni. Til að ná árangri þurfa þeir því að skipuleggja sig til nýrrar baráttu, breyta um forsytu og baráttuleiðir. Andstæðingurinn bíður vel skipulagður, auðugasta fólks landsins með vel smurða áróðurs- og baráttuvél.

Heyra má og sjá viðtalið við Inga Þór í spilarnum hér að ofan.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí