Segjast stolt af baráttuvilja og hugrekki Eflingarfélaga

Verkalýðsmál 1. mar 2023

„Efling lýsir miklu stolti af einingu, baráttuvilja og hugrekki Eflingarfélaga. Sú barátta er gegn óréttlátu þjóðfélagsskipulagi. Hún hefur öðlast mátt til að verða raunverulegt hreyfiafl breytinga í íslensku samfélagi. Með baráttu síðustu mánaða hefur félagið staðfest að umbreytingu þess í baráttusamtök verður ekki snúið við,“ segir í yfirlýsingu Eflingar vegna miðlunartillögu sáttasemjara.

Félagið hvetur félagsfólk til að greiða atkvæði, kynna sér efni miðlunartillögunnar og taka sjálfstæða afstöðu til hennar í atkvæðagreiðslu.  „Efling – stéttarfélag mun halda áfram baráttu sinni fyrir réttlæti til handa verka- og láglaunafólki, þar sem félagsfólk eru fjölmenn, sameinuð og sýnileg,“ segir í lok yfirlýsingarinnar.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Yfirlýsing vegna miðlunartillögu 1. mars

Settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu Eflingar og SA lagði í dag fram miðlunartillögu. Texti miðlunartillögunnar í heild er aðgengilegur á vef ríkissáttasemjara hér. Þar verða einnig birtar leiðbeiningar um atkvæðagreiðslu, sem verður framkvæmd af embætti ríkissáttasemjara.

Efni tillögunnar

Í meginatriðum er miðlunartillagan samhljóða kjarasamningi SA við SGS. Tillögunni fylgir launatafla þess samnings sem og önnur ákvæði, til að mynda um hækkanir á desemberuppbót, orlofsuppbót og bónusum í fiskvinnslu.

Allar hækkanir á kauptöxtum og almenn hækkun að upphæð 33 þúsund krónur gilda frá 1. nóvember 2022. Í miðlunartillögunni er afturvirkni þessara hækkana tryggð, og verða afturvirkar hækkanir greiddar út í einu lagi við næstu útborgun launa.

Vikið er frá SGS-samningnum í miðlunartillögunni að því leyti að búið er til nýtt starfsheiti fyrir almennt starfsfólk á hótelum. Raðast almennt starfsfólk, meðal annars hótelþernur, einum launaflokk hærra í töflu en áður.

Einnig fylgir tillögunni aðskilið samkomulag um innleiðingu á bónus fyrir bílstjóra hjá Skeljungi og Olíudreifingu vegna aksturs með hættuleg efni (ADR). Sömuleiðis náðist samkomulag við Samskip um 28% hækkun á ábata í vinnustaðasamningi og hækkun á launaflokki bílstjóra með ADR-réttindi um einn. Taka þessar breytingar gildi frá 1. febrúar 2023.

Framlagning tillögunnar uppfyllir skilyrði laga um að ráðgast hafi verið við aðila og að samningaviðræður séu fullreyndar. Er það ólíkt miðlunartillögu Aðalsteins Leifssonar frá 26. janúar sem Efling hefur frá upphafi talið ólögmæta.

Barátta gegn ofurefli

Frá því samningar við SA urðu lausir þann 1. nóvember hefur samninganefnd Eflingar barist af öllu afli fyrir ásættanlegum kjarasamningum fyrir Eflingarfélaga.

Róður deilunnar þyngdist mjög þegar tilkynnt var að Starfsgreinasambandið hefði þann 3. desember 2022 undirritað samning við SA. Frá þeim tímapunkti lögðust önnur stéttarfélög, SA og ríkissáttasemjari á eitt um að þvinga Eflingu til samþykktar á þeim samningi óbreyttum. Efling og samninganefnd félagsins hefur því mánuðum saman barist við ofurefli.

Efling rökstuddi frá upphafi að SGS-samningurinn væri ekki ásættanlegur fyrir félagsfólk. Félagið taldi samninginn fela í sér of lágar hækkanir miðað við verðbólgu, metafkomu fyrirtækja og húsnæðiskostnað sem sligar félagsfólk Eflingar mun meira en verkafólk annars staðar á landinu. Fulltrúar stéttarfélaganna sem undirrituðu samningana í desember hafa á síðustu vikum sjálfir bent á að forsendur þeirra samninga hafi reynst rangar og að samningarnir hefðu átt að vera betur tryggðir gegn verðbólgu.

Þrátt fyrir málefnaleg rök Eflingar og ítrekuð tilboð (29. nóvember, 21. desember og 8. janúar) þar sem samninganefnd færði sig nær viðsemjanda sínum sýndu SA enga viðleitni til að eiga í samningaviðræðum í góðri trú. Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari gerði engar tilraunir til að stuðla að slíkum viðræðum, og lét sig vanta á vinnufund sem hann boðaði sjálfur milli jóla og nýárs þar sem meta átti svigrúm til aðlögunar SGS-samningsins að samsetningu og aðstæðum félagsmannahóps Eflingar.

Löglaust inngrip ríkissáttasemjara

Kjaradeilan tók smátt að snúast um það hvort Efling nyti í raun sjálfstæðs samningsréttar. Í stað þess að beita sér fyrir umræðum um efnisatriði og málamiðlanir kaus Aðalsteinn Leifsson að þröngva miðlunartillögu upp á Eflingu þann 26. janúar. Tímasetning tillögunnar var augljóslega hugsuð til að hamla því að boðaðar verkfallsaðgerðir Eflingarfélaga á hótelum Íslandshótela gætu hafist.

Þvert á lög vanrækti Aðalsteinn allt samráð við Eflingu áður en hann lagði fram tillögu sína, og vanrækti jafnframt að leiða deiluaðila saman til eiginlegra samningaviðræðna. Hafnaði félagið frá upphafi tillögunni sem lögleysu og markleysu.

Jafnframt taldi félagið embætti ríkissáttasemjara skorta heimild til að krefja félagið um afhendingu kjörskrár. Efling fékk réttmæti þeirrar afstöðu sinnar staðfest með dómi Landsréttar þann 13. febrúar.

Ráðherrar þétt að baki Aðalsteini

Ráðherrar í ríkisstjórn stóðu þétt að baki Aðalsteini Leifssyni og vörðu gjörðir hans við hvert tækifæri. Guðmundur Ingi Guðbrandsson ráðherra vinnumarkaðsmála vildi ekki að hitta fulltrúa Eflingar til viðræðna um miðlunartillöguna, heldur kaus fremur að fara til útlanda.

Í opinberum ummælum sínum um lögbrot embættis ríkissáttasemjara gegn verka- og láglaunafólki hafa Guðmundur Ingi og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra aldrei viðurkennt þann ósóma sem í þeim brotum fólst, heldur einungis rætt um nauðsyn þess að breyta vinnumarkaðslöggjöfinni. Hlýtur það að teljast óvenjulegt að fulltrúar meirihlutans á löggjafarþingi Íslendinga bregðist við lögbrotum með því að kenna lögunum um, fremur en að beina sjónum að þeim sem lögin brýtur samkvæmt staðfestri niðurstöðu dómstóla.

Eining um áhrifaríkar verkfallsaðgerðir

Samninganefnd Eflingar varði miklum tíma í undirbúning verkfallsaðgerða. Heimsóttu samninganefndarmenn meðal annars allar starfsstöðvar Íslandshótela til að kynna félagsfólki fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir og áttu aðra fundi með félagsfólki.

Þrátt fyrir linnulausan áróður og hótanir bæði SA og eigenda Íslandshótela samþykktu félagsmenn verkfallsaðgerðirnar með afgerandi meirihluta. Efling hafði einnig betur gegn málshöfðun SA í Félagsdómi um lögmæti verkfallsaðgerðanna og hófust þær þann 7. febrúar.

Í framhaldi boðaði félagið til verkfallsaðgerða á Berjaya hótelkeðjunni, á Reykjavík Edition hótelinu, hjá Samskipum, hjá Skeljungi og hjá Olíudreifingu. Voru allar þær verkfallsboðanir samþykktar með sannfærandi meirihluta og góðri þátttöku. Var starfrækt undanþágunefnd sem samþykkti allar undanþágubeiðnir sem sneru að almannaöryggi.

Samninganefnd kaus sökum verkbanns SA að boða ekki til þeirra verkfallsaðgerða sem einnig voru samþykktar 20. febrúar meðal öryggisvarða, ræstingafólks og fleiri hótelstarfsmanna með sterkum meirihluta.

Samtals tóku 1433 Eflingarfélagar þátt í verkfallskosningum í janúar og febrúar um 5 aðskildar verkfallsboðanir. Þar af kusu 1088 með aðgerðum, eða 76%. Er það markvert meiri stuðningur við verkfallsaðgerðir en í kjara- og viðhorfskönnun félagsins sem fram fór haustið 2022.

Eflingarfélagar sterkir, sýnilegir og samstiga

Eflingarfélagar sýndu jafnframt samstöðu sína og baráttuvilja með fjöldasamkomum og mótmælaaðgerðum, sem voru þær fjölsóttustu og kraftmestu sem sést hafa meðal verkafólks á almennum vinnumarkaði áratugum saman. Þátttaka í slíkum aðgerðum var algjörlega valkvæð og ekki skilyrði fyrir afgreiðslu verkfallsstyrks.

Mótmæli fyrir utan ráðherrabústaðinn þann 10. febrúar leiddu til þess að formaður Eflingar og fulltrúar Eflingarfélaga fengu viðtal við forsætisráðherra, sem sýndi þó kröfum og aðstæðum Eflingarfélaga sama tómlæti við það tækifæri og við öll önnur tækifæri sem henni hafa gefist til að tjá sig um sögulega baráttu láglaunafólks í þessari kjaradeilu.

Réttnefndar viðræður stóðu í örfáa daga í febrúar
Í kjölfar dóms Landsréttar sagði Aðalsteinn Leifsson sig frá umsjón kjaradeilu Eflingar og SA. Þann 14. febrúar var Ástráður Haraldsson skipaður í hans stað.

Vegna vaxandi þunga verkfallsaðgerða og skipbrots miðlunartillögu Aðalsteins Leifssonar tókst loks að fá Samtök atvinnulífsins að samningaborðinu þann 15. febrúar. Að kvöldi 16. febrúar ákvað samninganefnd að láta reyna af alvöru á viðræður við SA undir stjórn nýs sáttasemjara og frestaði verkfallsaðgerðum í þrjá daga.

Í þessum viðræðum teygði Efling sig eins langt og mögulegt var og sýndi mikla lausnamiðun og samningsvilja. Það dugði þó ekki til, og sigldu SA viðræðum í strand þann 19. febrúar þrátt fyrir að litlu munaði, aðeins á bilinu 0 til 10 þúsund krónum í starfsaldursþrepum samanborið við SGS samninginn.

Ógnarstjórn og innihaldslausar hótanir

Fremur en að brúa bilið við sinn viðsemjanda með sanngjörnum málamiðlunum kusu Samtök atvinnulífsins að boða til verkbanns á alla Eflingarfélaga á almennum vinnumarkaði þann 22. febrúar, að aflokinni kosningu. Tilgangurinn með verkbanninu var sá að tæma vinnudeilusjóð Eflingar, að hræða Eflingarfélaga til hlýðni og að þrýsta á stjórnvöld að taka afstöðu með SA í kjaradeilunni.

Efling lýsti því yfir frá fyrsta degi að vinnudeilusjóður félagsins yrði ekki nýttur til að fjármagna þetta níðingsverk. Þá komu fljótt í ljós miklir brestir í röðum atvinnurekenda, sem unnvörpum lýstu sig óbundna af verkbannsboðuninni. Þá leiddi könnun félagsins meðal Eflingarfélaga í ljós að fjölmargir atvinnurekendur treystu sér ekki til að veita starfsfólki neinar upplýsingar um afstöðu til verkbanns, augljóslega í trausti þess að ekki kæmi til beitingar á þessari hótun.

Svo fór að verkbanni var frestað einhliða af hálfu SA með þriggja daga fyrirvara þann 27. febrúar. Beiting þessarar hótunar, sem var tilraun til að marka upphaf nýs og ógeðfellds kafla í sögu íslensks vinnumarkaðar, mun seint gleymast.

Stolt af einingu, baráttuvilja og hugrekki

Efling lýsir miklu stolti af einingu, baráttuvilja og hugrekki Eflingarfélaga. Sú barátta er gegn óréttlátu þjóðfélagsskipulagi. Hún hefur öðlast mátt til að verða raunverulegt hreyfiafl breytinga í íslensku samfélagi. Með baráttu síðustu mánaða hefur félagið staðfest að umbreytingu þess í baráttusamtök verður ekki snúið við.

Félagið hvetur félagsfólk til að greiða atkvæði, kynna sér efni miðlunartillögunnar og taka sjálfstæða afstöðu til hennar í atkvæðagreiðslu.

Efling – stéttarfélag mun halda áfram baráttu sinni fyrir réttlæti til handa verka- og láglaunafólki, þar sem félagsfólk eru fjölmenn, sameinuð og sýnileg.

Myndin er af samninganefnd Eflingar

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí