Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst, skrifar grein í Mogga dagsins og bendir á að tafir íslenskra stjórnvalda við að auglýsinga milliríkjasamninga gegn spillingu geti veikt möguleika á að sækja fólk til saka fyrir spillingu í öðrum löndum. Svo vill til að þetta á við um Samherjamálið, sem er spillingarmál sem nær milli landa og er innan þeirra tímamarka sem Bjarni Már vísar til.
Bjarni Már segir samning Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu frá 2003 vera helsta milliríkjasamningurinn sem ríki heims hafa komið sér saman um í baráttunni gegn spillingu. Ísland fullgilti samninginn árið 2011 en birti hann ekki með auglýsingu í stjórnartíðindum fyrr en rúmlega ellefu árum síðar, þ.e. 26. ágúst á síðasta ári. Bjarni Már segir svipaða sögu að segja um viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins á sviði refsiréttar um spillingu frá 2003. Ísland fullgilti samninginn árið 2013 en birti hann ekki í stjórnartíðindum fyrr en átta árum síðar, þ.e. 21. júlí 2021.
„Þessi töf á birtingu hefur að öllum líkindum afleiðingar,“ skrifar Bjarni. „Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað kemur fram sú meginregla að fyrirmælum er felast í lögum, auglýsingum, reglugerðum, samþykktum eða öðrum slíkum ákvæðum almenns efnis megi eigi beita fyrr en við birtingu í Stjórnartíðindum. Auk þess kemur fram að óbirt fyrirmæli bindi þó stjórnvöld frá gildistöku þeirra.“
Bjarni Már bendir á að í almennum hegningarlögum komi fram að refsa skuli eftir íslenskum hegningarlögum fyrir háttsemi sem greinir í umræddum samningi og viðbótarbókun enda þótt hún eigi sér stað utan íslenska ríkisins og án tillits til þess, hver er að henni valdur.
„Vegna fyrrnefndrar tafar á birtingu í stjórnartíðindum C má spyrja hvort það gangi upp að ákæra fyrir spillingarbrot, á grunni fyrrnefnds samnings og bókunar, fyrir háttsemi sem átti sér stað fyrir birtingu samningsins og bókunarinnar, ef haft er í huga að lögin um stjórnartíðindi banna beitingu óbirtra fyrirmæla. Ofangreint verður að hafa í huga þegar meint spilling íslenskra aðila á erlendum vettvangi er tekin til skoðunar,“ skrifar Bjarni Már.
„Til að forðast misskilning er rétt að taka fram að aðrar leiðir eru færar til að gefa út ákæru á grundvelli almennra hegningarlaga fyrir spillingu en hér að ofan er lýst. Auk þess verður að taka fram að íslenska ríkið er bundið af fyrrnefndum samningi og bókun frá því tímamarki að fullgilding átti sér stað. Hvað sem því líður þá er algerlega ótækt að það hafi tekið jafn langan tíma og raun ber vitni að birta umrædda alþjóðasamninga. Auk þess má spyrja hvort þessi töf gefi einhverjar vísbendingar um stefnu stjórnvalda í baráttunni gegn spillingu síðasta áratuginn,“ skrifar Bjarni Már.