Í nýrri húsnæðisáætlun Reykjavíkur er gert ráð fyrir að byggðar verði tvö þúsund íbúðir á ári næstu fimm árin. Til að ná því markmiði þyrfti að ljúka við byggingu á tæplega 5,5 íbúðir að meðaltali á hverjum degi ársins. Það sem af er ári hafa 108 íbúðir klárast í Reykjavík eða rúmlega 1,6 á dag. Það er innan við þriðjungurinn af því sem þarf til að standast áætlanir.
Margt bendir til að mjög hafi hægt á byggingu íbúða eftir að fasteignaverð hætti að hækka og tók að lækka lítillega. Þótt varasamt sé að draga of miklar ályktanir út frá þeim íbúðum sem hafa klárast það sem af er ári þá er samt bráðum einn fimmti liðinn af árinu. Og tölur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar lofa ekki góðu.
Til að ná yfirlýstum markmiðum um tvö þúsund íbúðir í Reykjavík þyrfti framleiðslan að stökkva úr rúmlega 1,6 íbúð á dag í 6,7 á dag það sem eftir lifir árs. Framleiðsluhraðinn þyrfi á fjórfaldast.
Í Reykjavík, eins og alls staðar á landinu, treysta stjórnvöld á að markaðurinn leysi húsnæðiskreppuna. Það hefur ekki gerst hingað til, en samt trúa stjórnvöld að það muni gerast í framtíðinni. Eitt af einkennum hins svokallaða markaðar er að hann kippir að sér höndunum á óvissutímum og þegar verð lækkar, vill bíða og sjá til hvort horfur batni ekki og verð hækki svo framleiðendur fái hámarksverð og hámarksarð út úr sinni framleiðslu. Margt bendir til að það sé einmitt að gerast nú.
Með sömu framleiðslu og fyrstu 66 daga ársins munu aðeins tæplega 600 íbúðir klárast í Reykjavík. Framleiðslan gengur betur annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Að óbreyttum hraða ættu að klárast rúmlega þúsund íbúðir í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. Og svo tæplega þúsund utan höfuðborgarsvæðisins.
Íbúar Reykjavíkur eru nú 36% landsmanna. Þeir voru 40% landsmanna fyrir aldarfjórðungi. Af þeim íbúðum sem klárast hafa á árinu eru 23% í Reykjavík. Með sama áframhaldi mun Reykvíkingum því fækka enn sem hlutfall af landsmönnum.