Breski Seðlabankinn hefur hækkað vexti úr 4,0% í 4,25%. Þetta kemur í kjölfarið á hækkun verðbólgu í landinu, en verðbólgustigið hélt áfram að hækka í febrúar og mældist 10,4% á ársgrundvelli miðað við 10,1% í janúar.
Andrew Bailey, seðlabankastjóri, réttlætir þessa hækkun með áframhaldandi hækkun verðbólgu og kjarasamningum sem mælast vel yfir 10% stigum í landinu. Telur Bailey að verðbólga muni lækka verulega síðar á árinu en varaði fyrirtækin sérstaklega við því að hækka verðlag úr hömlum. „Ég vil segja þeim sem setja verðið- gerið ykkur grein fyrir því að ef við festum verðbólguna í sessi munu vextir halda áfram að hækka og verðbólga er engum til góða. Hún kemur illa niður á fólki og skaðar sérstaklega þá sem minnst mega sín í samfélaginu“.
Verkalýðsfélögin hafa vissulega náð fram góðum samningum með kröftugri baráttu. En forystumenn þeirra hafa bent á að almenningur hafi setið eftir í árafjölda og þoli einfaldlega ekki þær verðhækkanir sem hafa verið án góðrar leiðréttingar. Eitt stærsta verkalýðsfélagið Unite the Union hefur skrifað ítarlega skýrslu um hvaðan verðhækkanirnar koma. Benda samtökin á að fyrirtæki, jafnt innflytjendur sem smásöluaðilar, hafi notað tækifærið sem kom með hækkun á aðföngum til að smyrja vel ofan á verðið og hækka gróðann. Sharon Graham, leiðtogi verkalýðsfélagsins bendir á að við séum stödd í miðri græðgiskrísu. „Ekki misskilja stöðuna, mörg fyrirtæki standa mjög vel. Stjórnmálamenn reyna að hunsa gróðafíknina, en eins og þessi skýrsla sýnir er hagnaður stærstu fyrirtækjanna í Bretlandi nú 89% hærri en fyrir heimsfaraldurinn.“

Það er athyglisvert að í Bretlandi standa vextir Seðlabankans 4,25% og hækkuðu um 0,25% meðan á Íslandi hækkuðu vextir um heilt prósentustig og standa nú í 7,5%. Það er ljóst að vaxtastigið er miklu hærra á Íslandi en í nágrannalöndunum og vakna því spurningar um hvað íslenski Seðlabankinn veit sem aðrir vita ekki.
Myndin er af Bailey benda á hvert vextirnir fara.