Af hverju er Ísland á niðurleið?

Árið 2007 var Ísland best í heiminum. Fyrir utan hetjusögur íslenskra útrásarvíkinga trjónaði landið efst á þróunarskala Sameinuðu Þjóðanna (Human Development Index eða HDI) og hin Norðurlöndin fylgdu fast á eftir. Árið 2007 mældist Ísland líka með minnstu spillinguna og mesta fjölmiðlafrelsið! Norðurlöndin fylgdu þar fast á eftir. Árið 2007 var Ísland í 12. sæti yfir lönd með hæstu verga landsframleiðslu (VLF) á hvern íbúa eða 38,000 Bandaríkjadala.

Á nokkrum áratugum hafði Íslandi farið úr því að vera þróunarríki yfir í það að vera eitt mest velmegandi ríki í heiminum. Undir þessari glansmynd áttu hins vegar eftir að koma í ljós alvarlegir brestir og ári seinna var allt hrunið.

Í dag er Ísland reyndar enn númer þrjú á Þróunarskalanum og Ísland hefur á sama tíma færst upp um fjögur sæti þegar kemur að landsframleiðslu á mann. Gott mál, eða hvað? Þessi þróunarskali mælir reyndar bara þrennt: Landsframleiðslu á mann, lífslíkur og menntun. Við skulum ekki gleyma að landsframleiðslan er meðaltal. Nær væri að benda á að þrátt fyrir að Íslandi sé með jöfnustu ríkjum heims á sér samt stað ákveðin samþjöppun á auði. Árið 2021 fór til að mynda 46% af eignaaukningu til einungis 10% þjóðarinnar. Eins og staðan er nú, er líklegt að þetta aukist.

Annar skali er tekinn við af HDI sem helsta mælitækið á velmegun þjóða, en það er skali sem mælir þróun út frá sjálfbæru þróunarmarkmiðunum (Sustainable Development Index). Þar trjóna Norðurlöndin efst eins og við er að búast en Ísland er þar langt fyrir neðan eða í 22. sæti þrátt fyrir að vera í 8. sæti yfir lönd með hæstu landsframleiðslu á mann.

Ísland kemur vel út í fjórum flokkum: fátækt, hreinni orku, jöfnuði og markmiði 16 sem skoðar hvort lönd eru friðsæl og stofnanir tryggi grunnréttindi fólks.

Við skulum hafa í huga að aftur notum við meðaltöl og vissulega er varla hægt að tala um fátækt á Íslandi ef við miðum okkur við Kongó en samkvæmt okkar eigin viðmiðum er talið að allt að einn af hverjum tíu á Íslandi búi við fátækt. Og þó við mælumst ekki með hungur á Íslandi þegar litið er á tölurnar á bak við markmiðið er ágætt að skoða raunverulegar tölur en þá kemur í ljós að yfir 6% á Íslandi búa reyndar við fæðuóöryggi. Það eru um 23 þúsund manneskjur og stór hluti þeirra eru börn.

En ástæðan fyrir lélegri einkunn í markiði tvö er ekki fæðuóöryggið heldur offita. Tuttugu prósent landsmanna eru skilgreind með offituvandamál. 

Þegar við skoðum önnur markmið þar sem við erum ekki að standa okkur, kemur í ljós að við erum alls ekki sjálfbær. Við erum umhverfissóðar, berum litla virðingu fyrir lífríkinu og drögum lappirnar þegar kemur að hamfarahlýnun. Þá fáum við lélega einkunn þegar kemur að stuðningi við þróunarríki.

Athygli vekur að við komum ekkert sérstaklega vel út í verndun hafsins. Þar stöndum við í stað. Það hlýtur að vera áhyggjuefni í ljósi þess hvað hafið er okkur mikilvægt.

En hvað með hina skalana? Eftir að hafa mælst sem minnst spillta landið árið 2007, sem ég tel persónulega hafi bara verið skortur á upplýsingum um raunverulega spillingu á Íslandi, þá er Ísland nú hrunið niður í 17. sæti. Þegar kemur að fjölmiðlafrelsi þá mældist mest frelsi í Noregi árið 2022. Fast á eftir, eins og við var að búast komu svo Danmörk, Svíþjóð, Eistland og Finnland. Ísland er dottið niður í 15. sæti og kemur ekki á óvart. Hver man ekki eftir tilraun yfirvalda til að þagga niður í Stundinni rétt fyrir kosningar til að vernda fjármálaráðherra og nýleg atlaga að blaðamönnum í tengslum við mál Samherja.

Þá er jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs á Íslandi skelfilegt. Ísland rekur lestina ásamt Tyrklandi á lista yfir OECD ríkin. Samt var Ísland sagt hamingjusamasta ríki heims árið 2020. Á sama tíma er Ísland reyndar það ríki í Evrópu sem neytir mest þunglyndislyfja. Tengsl? Þessi þróun niður á við hlýtur að vera áhyggjuefni og við verðum að spyrja hvers vegna fer Ísland niður á við á meðan aðrar Norðurlandaþjóðir trjóna öll á toppnum. Hvað skilur okkur að?

Í staðinn fyrir að binda enda á hungur og styrkja innviði og þjónustu virðist það mikilvægara hjá stjórnvöldum að vernda eignarfólk. Það má alls ekki setja á bankaskatt, stóreignaskatt, hækka auðlindagjöld, eða hækka verulega fjármagnstekjuskatt þó það sé vitað að á Íslandi eigi sér stað miklir tekjutilflutningar, þar sem tekjur eru taldar fram sem fjármagnstekjur þar sem þær bera lægra skatthlutfall.

Auk þess er skattbyrði gríðarlega ójöfn. Svo ég vitni í ASÍ: „Á Íslandi bera fjármagnstekjur mun lægri skattbyrði en launatekjur. Skattbyrði þeirra allra tekjuhæstu lækkar eftir því sem tekjur aukast. Þetta er andstætt markmiði framsækinna skattkerfa, sem byggir á því að skattbyrði hækkar eftir því sem tekjur aukast.“

Það má heldur alls ekki setja reglur til að stemma stigu við ofurhækkunum á leigu (Davíð Oddsson tók það af á sínum tíma!). Það má ekki laga lánakerfið og bankakerfið í heild sinni svo fólk þurfi ekki að borga ofurvexti, sem þekkjast ekki í nágrannalöndum okkar. Innviðir grotna og það er grafið kerfisbundið undan öllum eftirlitsstofnunum.

Laun stjórnenda hafa margfaldast á meðan laun þeirra efnaminnstu duga ekki fyrir framfærslu. Bæjarstjórar fá greidd laun á par við þau sem stýra stórborgum, algjörlega úr takt við meðallaun og stærð bæjarfélaga.

Bæjarfélögin eru reyndar á hausnum því þau eru fjársvelt. Þau gætu til dæmis aukið tekjur sínar í gegnum útsvar á fjármagnstekjur, en það má ekki heldur. Vandamálið í íslensku samfélagi er græðgi örfárra einstaklinga sem tengjast inn í stjórnmálin okkar. Tengsl á milli viðskipta og stjórnmálanna eru svo svakaleg að ég myndi ganga svo langt að kalla sölu ríkiseigna dæmi um kleptókrasíu.

Spurningin er þessi: viljum við vera í flokki með hinum Norðurlöndunum sem standa sig best á öllum alþjóðlegu skölum eða ætlum við að halda áfram að hrapa niður á við?

Höfundur, Helen Ólafsdóttir, er öryggisráðgjafi hjá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí