Eftir heitar umræður á Háskólaþingi var samþykkt ályktun gegn opnum skrifstofum og verkefnamiðuðu vinnurými og þess krafist að akademískt starfsfólk skólans fengju að halda einkaskrifstofur. Ályktunin fer gegn stefnu yfirstjórnar skólans sem hefur falist á kröfur fjármálaráðuneytið Bjarna Benediktssonar um að umbreyta eigi vinnurýminu í anda kenninga um gagn- og arðsemi opinna verkaefnamiðaðra skrifstofa.
Flutningsmenn tillögurnar voru þau Amalía Björnsdóttir, Ásta Jóhannsdóttir, Berglind Rós Magnúsdóttir, Björn Þorsteinsson, Elsa Eiríksdóttir, Gauti Kristmannsson, Geir Sigurðsson, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, Helga Ögmundardóttir, Íris Ellenberger, Kristín Briem, Pétur Henry Petersen, Sigríður Rut Franzdóttir, Snæbjörn Pálsson og Steinunn Hrafnsdóttir. Þau lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Tillaga til ályktunar lögð fyrir háskólaþing 26. apríl 2023
Tillaga til ályktunar: Háskólaþing ályktar að öllum akademískum starfsmönnum skulu standa til boða einkaskrifstofur sem tryggja gott næði fyrir ritstörf, kennslu og meðferð viðkvæmra upplýsinga. Með einkaskrifstofum er hér átt við einkarými, að lágmarki 7 fm,i með ógagnsæjum veggjum og glugga sem starfsmaður hefur aðgang að að staðaldri. Háskólaráð eða rektor Háskóla Íslands skulu ekki gera samninga við íslenska ríkið eða aðra sem ganga gegn þessari grundvallarreglu. Háskóli Íslands skal taka til fullra varna gegn stjórnvöldum fari þau fram á að vinnuaðstaða starfsfólks sé skert, enda gangi stofnunin út frá því að hún sé sjálfráða um tilhögun húsnæðis síns.
Með tillögunni fylgdi greinargerð: Að undanförnu hefur sú breyting orðið á stefnu stjórnvalda og, að því er virðist, yfirstjórnar Háskóla Íslands, varðandi vinnuaðstöðu akademísks starfsfólks að því skuli ekki lengur standa einkaskrifstofur til boða. Yfirvofandi breytingar á vinnuaðstöðu starfsmanna á Menntavísindasviði og Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands hafa leitt það í ljós að fella skal háskólann og akademískt starfsfólk undir þá stefnu stjórnvalda í fjármálum 2024-2028 að fjölga ríkisaðilum í verkefnamiðuðum vinnurýmum úr 17% árið 2022 í 65% árið 2028 til að ná fram sparnaði í ríkisrekstri.
Í verkefnamiðuðum vinnurýmum hefur starfsfólk ekki sína eigin vinnustöð heldur flakkar á milli ólíkra, misopinna vinnurýma, eftir því hvers konar vinnu það þarf að inna af hendi. Þar vinnur fólk einbeitingarvinnu í einu rými, svarar tölvupóstum og/eða undirbýr kennslu í öðru rými, sinnir fjarkennslu í þriðja rýminu og fundar með nemendum og samstarfsfólki í því fjórða, svo dæmi sé tekið.
Reynsla erlendis frá og rannsóknir sem gerðar hafa verið á verkefnamiðuðum vinnurýmum sýna svo ekki verður um villst að slíkt fyrirkomulag henti ekki akademísku starfsfólki og þar sem það hefur verið innleitt hafi það leitt til fjölgunar á veikindadögum, minni framleiðni og minni starfsánægju.
Í kjölfar gagnrýni á þessa nýju stefnu hafa þau skilaboð fengist frá Menntavísindasviði að það starfsfólk sem vilji fasta vinnuaðstöðu muni geta fengið slíka, þá líklega í opnu rými þar sem ljóst er að það pláss sem Menntavísindasvið fær á Sögu mun ekki rúma einkaskrifstofur fyrir meirihluta starfsfólks. Rannsóknir og reynsla af opnum vinnurýmum hafa sömuleiðis leitt í ljós að þau leiða til meiri óánægju starfsfólks, minna starfsþreks, fjölgunar á veikindadögum og minnkandi framleiðni.
Það er því ljóst að allar tilraunir til að ná fram sparnaði í ríkisrekstri með verkefnamiðuðum vinnurýmum, eða annars konar opnum rýmum, eru dæmdar til að hafa afdrifarík áhrif á getu akademísks starfsfólks til að sinna þeirri krefjandi álagsvinnu sem það hefur skuldbundið sig til. Akademískt starfsfólk hefur mikla þörf fyrir næði, aðgang að bókum og rannsóknargögnum, aðstöðu til að eiga í trúnaðarsamtölum við nemendur og á því hvílir lagaleg skylda til að hlýða lögum um persónuvernd með því að hindra óviðkomandi aðgang að rannsókna- og nemendagögnum með viðkvæmum persónuupplýsingum. Það gefur því augaleið að stefnubreyting í átt að verkefnamiðuðum vinnurýmum mun skerða til muna þá aðstöðu sem akademískt starfsfólk þarf til að sinna öllum sínum skyldum. Nái áform um verkefnamiðuð vinnurými fram að ganga mun starfsfólki enn fremur vera mismunað eftir fræðasviðum, þar sem ljóst er að sumt starfsfólk mun flytja í verkefnamiðuð eða opin vinnurými strax á næsta ári á meðan önnur verða áfram í núverandi húsnæði, jafnvel áratugum saman.
Því er hér lögð fram fyrir Háskólaþing tillaga til ályktunar um að Háskóli Íslands standi vörð um vinnuaðstöðu akademísks starfsfólks. Háskóli Íslands getur aldrei orðið verðmætari en mannauður hans og akademískt starfsfólk skólans er fjöregg hans. Verði svo gróflega vegið að vinnuaðstöðu þess getur hlotist af óbætanlegur skaði fyrir gæði háskólastarfs, traust til stofnunarinnar, afköst og heilsu starfsfólks.
Greinargerðinni fylgdi síðan langur listi yfir heimildir í rannsóknir sem styðja gagnrýni á kröfur fjármálaráðuneytisins um opin vinnurými og verkaefnamiðuð rými.
Nokkuð hefur verið rætt um þessi mál við Rauða borðið, síðast í viðtali við þau Eyju Margréti Jóhönnu Brynjarsdóttur og Arngrím Vídalín, sem hlýða má á hér: