„Höfum við einhverja hugmynd um hversu margir túristar eru nógu margir túristar?“

„Höfum við einhverja hugmynd um hversu margir túristar eru nógu margir túristar, hversu mörg tonn af fiski eru nógu mörg tonn af fiski, hvað við viljum endurnýja Teslurnar oft eða hversu margar útlandaferðir á ári duga til að víkka sjóndeildarhring okkar? Og svo framvegis. Er einhvern tíma komið nóg?“

Þetta sagði Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur fyrr í dag á opnum samráðsfundi um sjálfbæra þróun á Íslandi í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Fundurinn var boðaður Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Eiríkur Örn birtir ræðu sína á fundinum á Facebook en hana má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Góðir fundargestir.

Ég ætla ekki að tala við ykkur um ofvöxt og samþjöppun í fiskeldi, ekki um þá 300 þúsund skemmtiferðaskipatúrista sem væntanlegir eru til Ísafjarðar í sumar, ekki um jólafríin okkar á Tenerife eða sumarfríin á Ítalíu, Teslur, togara, einnota tískufatnað eða Ali Express – og samt í raun allt þetta. Ég ætla að biðja ykkur að hugsa aðeins með mér um það sem einn ágætis frændi forsætisráðherra og kollegi minn kallaði „meðvitaða breikkun á rassgati“.

En fyrst ætla ég með ykkur í göngutúr. Um daginn þræddi ég nefnilega eyrina. Ég byrjaði heima í Tangagötu, fór upp í Norðurtanga og gekk eftir Bökkunum niður í Mávagarð, út eftir smábátabryggjunni að Sundahöfn og meðfram nýja hafnarkantinum út í Suðurtanga, aftur fyrir skipasmíðastöðina, niður í Neðstakaupstað, út á Ásgeirsbakka og svo upp Pollgötuna. Eins nálægt strandlínunni og komast mátti án þess að fara sér að voða.

Þetta var frábær göngutúr sem ég mæli með þótt kannski sé best að fara hann utan háannatíma, stór hluti þessarar strandlengju heyrir víst undir náttúruleg heimkynni stórtækra vinnuvéla. Ekki síst er ákveðin upplifun að fara fyrir Suðurtanga – þar sem eitt sinn var ekki nema örmjór eyraroddi, en þar sem nú má finna mikið og óbyggt landsvæði, hálfgerða eyðimörk í bæjarlandslaginu, þar sem augljóslega er ekki gert ráð fyrir fólki í erindisleysu.

Þegar ég var kominn upp Pollgötuna að hringtorginu – þar sem eitt sinn var lítil vík sem hét „Bótin“ og er löngu komin undir land, einsog Múslingurinn og fleiri gleymd strandsvæði – þveraði ég eyrina upp Sólgötu og hélt heim á leið eftir göngustígnum ofan við Fjarðarstræti, þar sem rætt hefur verið um að „næsta landfylling“ komi til með að standa, stundum af slíkri sannfæringu að maður gæti best trúað því að eyrin sjálf væri lífvera sem væri að vaxa upp úr fötunum sínum, og við ábyrgðarlausir foreldrar ef við keyptum ekki sífellt ný og stærri.

Og þá var ég kominn hringinn. Heim til mín í Tangagötuna. Og þaðan ætla ég að rölta í aðeins aðra átt – tæp hundrað ár aftur í tímann.

Á þriðja áratug síðustu aldar – um það leyti sem fyrsti skipulagsuppdráttur bæjarins var samþykktur – var eyrin einsog fram hefur komið miklu minni og til að bæta gráu ofan á svart var bróðurpartur hennar enn undirlagður af túnum og saltfiskreitum. Allt svæðið frá bókhlöðuhorninu og niður í Tangagötu var Hæstakaupstaðarreitur, allt svæðið aftan við Aðalstræti og Skipagötu var Miðkaupstaðarreitur og allt svæðið neðan við Mjósundin – þar sem tanginn var varla nema mannsbreidd, en þar sem nú liggur samnefnd 250 metra löng gata – var Neðstakaupsstaðarreitur. Um fátt var jafn mikið rifist á þessum tíma og allt þetta landsvæði – og skyldi engan undra, enda fjölgaði bæjarbúum hratt – íbúatalan hafði rétt skriðið yfir þúsund manns um aldamótin en undir lok þriðja áratugarins bjuggu alls 2.740 manns í Ísafjarðarþéttbýli. Það var orðið þröngt á þessum mjóa tanga og ekki víst lengur hvar allir áttu að búa.

Næstu hundrað árin fjölgaði íbúum og fækkaði til skiptis – en með dálítilli einföldun má samt segja að frá þessum tíma hafi alltaf búið rétt um þrjú þúsund manns á Ísafirði. Þann 1. janúar í ár bjuggu t.d. 2.744 einstaklingar í bænum og hafði þá fjölgað um fjóra frá 1929. Þetta finnst auðvitað mörgum voðalegt, enda á fólki að fjölga – það er lögmálið – og sannarlega er hlutfall Ísfirðinga af heildarmannfjölda þjóðarinnar ekki nema fjórðungur af því sem það var. Ég vil aftur á móti fagna og fullyrða að í þessu séum við landsmönnum til fyrirmyndar – í veröld takmarkaðra auðlinda er fátt sem skiptir meira máli en að geta haldið í horfinu.

Einsog frægt er erum við nútímamennirnir í þessum firði hins vegar plássfrekara fólk en forfeður okkar – börnin okkar eiga meira dót en við áttum og við eigum meira dót en foreldrar okkar áttu og þau áttu meira dót en foreldrar þeirra og þannig koll af kolli og einhvers staðar þarf auðvitað að koma öllu þessu dóti fyrir. Ísfirðingar hafa af þessum sökum breitt mjög úr sér – og ekki bara með því að manna Ísfirðingafélagið í Reykjavík – heldur ekki síður með því að breiða úr sér í firðinum og með því að stækka undirlendið í honum. Í dag hefur Eyrin ekki bara margfaldast að stærð heldur eru ótal nýjar götur – heilu hverfin – uppi í hlíð, frá króki inn í fjarðarbotn, fyrir jafn margt fólk og bjó á mjóa tanganum fyrir hundrað árum.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því að lífið hafi verið að mörgu leyti hart. Þótt fólkinu á þriðja áratugnum hafi augljóslega þótt það sjálft mikið framfara- og velsældarfólk, þá vantaði það ýmislegt sem við gerum kröfu um í dag – ekki síst sérherbergi og bílastæði. Brauðstritið hefur líka orðið bærilegra, það er meira til skiptanna – þótt því sé reyndar ójafnar skipt – og við látum okkur mannréttindi, reisn og jafnrétti meiru varða en áður. Þessi hundrað ár af rassgatsbreikkun hafa alls ekki verið til einskis.

En ég spyr mig á sama tíma, í nafni þess sem hér er kallað sjálfbærni, hvort við – og þá meina ég við bæjarbúar, aðallega af því það er eitthvað svo óyfirstíganlegt að tala um okkur jarðarbúa – höfum einhverja hugmynd, jafnvel bara óljósa, um hvenær sé komið nóg? Hve mikil velsæld er næg velsæld til að henni megi með góðu móti skipta á milli okkar án þess að auðkýfingarnir fari á límingunum og hverju erum við tilbúin til að fórna fyrir óseðjandi hungrið í meira? Ef við verðum enn jafn mörg eftir 100 ár í viðbót, ætlum við þá að vera búin að breiða úr okkur inní Engidal? Ætlum við fylla upp í Prestabugtina? Ef okkur fjölgar jafn hratt og hingað til – bætum við okkur fjórum fyrir árið 2117 – verður þá komið nýtt hverfi í Naustahvilft og annað á Gleiðarhjalla? Fyrir framtíðarkynslóð sem á enn meira dót og hefur enn plássfrekari þarfir? Og hvað þá ef við verðum enn fleiri?

Allar þessar spurningar má svo auðvitað vandræðalítið yfirfæra á fiskeldi, túrisma, skemmtiferðaskip, togara, Teslur og Tenerife-ferðir. Höfum við einhverja hugmynd um hversu margir túristar eru nógu margir túristar, hversu mörg tonn af fiski eru nógu mörg tonn af fiski, hvað við viljum endurnýja Teslurnar oft eða hversu margar útlandaferðir á ári duga til að víkka sjóndeildarhring okkar? Og svo framvegis. Er einhvern tíma komið nóg? Eða gildir bara hér eftir sem hingað til – að meira sé einfaldlega alltaf betra, og án aukningar, stækkunar, útþenslu – meðvitaðrar breikkunar á rassgati – séu engar framfarir mögulegar og sjálf hamingjan óínáanleg?

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí