Stefán Ólafsson, prófessor emiritus í félagsfræði, segir að það sé mýta að laun á Íslandi séu óvenju há. Í pistli sem hann birtir á Facebook segir Stefán að þegar launakostnaður fyrirtækja er skoðaður að teknu tilliti til verðlags þá er útkoman sú, að Ísland er í fimmtánda sæti í Evrópu.
Hér fyrir neðan má lesa pistil Stefáns.
Atvinnurekendur tala iðulega um að laun séu með hæsta móti á Íslandi. Fjölmiðlar þeirra bergmála þetta svo um allt land.
Hins vegar er verðlag á Íslandi (og í Sviss) það hæsta sem þekkist. Hærra verðlag eykur hagnað fyrirtækja og rýrir kaupmátt almennings.
Síðan þegar launakostnaður fyrirtækja er skoðaður að teknu tilliti til verðlags þá er útkoman sú, að Ísland er í fimmtánda sæti, en ekki í einu af efstu sætunum. Svisslendingar eru bæði með hæsta verðlagið og hæsta launakostnaðinn og þar stendur almenningur því mun betur en hér á landi. Launakostnaður er talsvert hærri á hinum Norðurlöndunum en á Íslandi.
Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, en hún kemur frá Eurostat og er fyrir árið 2020.