Vondir yfirmenn valda ekki bara starfsmönnum sínum ama, þeir valda okkur öllum ama. Það er í það minnsta niðurstaða hagfræðirannsóknar sem var framkvæmd á Íslandi. Markmiðið var, líkt og er svo algengt er í hagfræði, að komast að því hvað öll þessi ömurð og vansæld hafi eiginlega kostað. Í stuttu máli má segja að niðurstaðan sé sú að vanlíðan starfsmanna sé meðal helstu skaðvalda hagkerfisins og er okkur öllum, skattgreiðendum, dýr. Dónaskapur í garð undirmanna valdi einnig talsverðu tjóni fyrir fyrirtæki. Ofan á það sýndu niðurstöður að algengasta rót vanlíðunar eru hlutir sem kosta ekkert að komast hjá.
Ásthildur Margrét Jóhannsdóttir, doktorsnemi í hagfræði, fer yfir þessa rannsókn í nýjasta tímariti stéttarfélagsins Sameykis. Hún segir álag og léleg laun ekki valda mestu vanlíðan heldur þetta:
„Sá einstaki þáttur sem sýnir sterkasta sambandið við hamingju er að yfirmaður meti að verðleikum þegar starfsfólk nær árangri í starfi. Næst á eftir koma streituvaldandi samskipti við yfirmann og þriðja er stuðningur frá samstarfsfólki við verkefni þegar á þarf að halda.“
Stundum er sagt að það kosti ekkert að segja takk. Niðurstaða rannsóknarinnar bendir raunar til þess að sá sem segir ekki takk, sé að valda okkur öllum fjárhagslegum skaða. Vafalaust eru margir sem hingað til hafa afskrifað óhamingju starfsfólks sem eitthvað væl með nokkrar efasemdir um vansæld samborgara valdi fjárhagslegu tjóni. Er það yfirleitt ekki öfugt?
„Vanlíðan í starfi fylgir margvíslegur kostnaður fyrir vinnuveitendur, s. s. í formi veikinda og minni framleiðni, þar sem afköst minnka þegar vanlíðan er mikil. Auk þessa fylgir kostnaður fyrir samfélagið í formi lægri skatttekna og hærri bótagreiðslna við að missa fólk út af vinnumarkaði til skemmri tíma eða lengri. Síðast en ekki síst er það kostnaður einstaklingsins sem felst annars vegar í beinum útgjöldum, s. s. tekjutapi, útgjöldum vegna læknis- og sálfræðiþjónustu og sjúkraþjálfunar og hins vegar í óáþreifanlegum kostnaði,“ segir umfjöllun Sameykis.
Þessi rannsókn hlýtur að teljast tækifæri fyrir þá sem segjast talsmenn skattgreiðenda. Þeim sem vilja umfram allt að ríkissjóður sé vel rekinn og draga úr óþarfa útgjöldum, eins og greiða listamönnum laun. Þjóðarátak gegn ruddalegum yfirmönnum er augljóst næsta skref.
Tómas sagði að samkvæmt könnuninni ættu stjórnendur á vinnustöðum að vilja, og sækjast eftir, að bæta starfsánægju og velsæld á sínum vinnustað. Þeim ætti að vera ljóst að góð samskipti skipta mestu máli í að ná góðum árangri í að rækta tengsl og velsæld á vinnustaðnum. Einnig ætti að vinna að því að gera starfsfólki létt að koma með tillögur að umbótum eða breytingum.
Ásthildur Margrét reynir í lok greinarinnar í Sameyki að svara því hvað sé til ráða. Mikilvægast sé líklega að tryggja það að tekið sé mark á þessari rannsókn og brugðist við henni. Að æðstu stjórnendur í fyrirtækjum átti sig virðingarleysi í garð starfsmanna valdi bæði þeim og fyrirtækinu fjárhagslegum tjóni og verði því ekki liðinn. Kannski tekst græðgi að leysa það sem samkennd tókst ekki.