Fyrr í dag tilkynnti lögreglan í Manchester í Bretlandi að knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson yrði ekki ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni. Hann er því laus allra mála en ljóst er að rannsókn málsins tók óeðlilega langan tíma. Gylfi var handtekinn vegna málsins í júní árið 2021.
Samkvæmt yfirlýsingu þá voru sönnunargögnin sem lágu fyrir ekki nægileg til að ná þeim þröskuldi sem settur er fram í reglum saksóknara. Málinu var því vísað frá.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segir á Facebook að þetta sé í sjálfu sér ríkisglæpur. Engin eðlileg ástæða geti útskýrt hve langan tíma það tók yfirvöld í Bretlandi að komast að þessari niðurstöðu. Kristinn þekkir vel skuggahlið réttarkerfisins í Bretlandi en hann hefur ítrekað lýst því yfir að Julian Assange sé pólitískur fangi og réttindi hans fótum troðin.
Kristinn skrifar um mál Gylfa: „Hef séð nægjanlega mikið af bresku réttarkerfi að geta sett það í ruslflokk. Að það taki nærri tvö ár að úrskurða að engar líkur séu á sakfellingu í máli sem getur ekki verið flókið rannsóknarefni, er forkastanlegur tími. Það er í sjálfu sér ríkisglæpur sem snýr bæði gegn meintum brotamanni og meintum brotaþola.“