Sigríður er dómarinn sem sagði 14 ára brotaþola vera fullorðinslega: „Berðu virðingu fyrir sjálfum þér“

„ÉG VAR FOKKING 14 ÁRA?“ Svo hljóðar tíst Möggu Werner sem hefur farið eins og eldur um sinu á Twitter. Magga birtir skjáskot af dómi í kynferðisbrotarmáli þar sem hún var brotaþoli. Í niðurstöðu dómsins segir meðal annars: „Brotaþoli er fullorðinsleg stúlka og að mati dómsins gæti hún í dag hæglega verið eldri en lífaldur hennar segir til um.“

Líkt og fyrr segir þá hefur tíst Möggu vakið sterk viðbrögð á Twitter og virðast nær allir sammála um að þetta orðalag í dómnum sé til skammar og raunar ógeðslegt. Sumir velta fyrir sér hvort dómari í málinu sé enn starfandi. Svo er raunin. Sigríður Hjaltested var dómari í málinu og hún starfar enn sem héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Magga segir í öðru tísti: „Ég hata að viðurkenna það, en staðreyndin er sú að réttarkerfið sem litla 14 ára ég treysti á í veikri von um réttlæti brást mér algjörlega.“

Athygli vekur að einföld leit á heimasíðu héraðsdóms leiðir í ljós að orðið „fullorðinsleg“ birtist í 17 dómum. Allir dómarnir vörðuðu einhvers konar kynferðisbrot. Rétt er að taka fram að leitin er ekki tæmandi, enda eldri dómar ekki aðgengilegir á vefnum. Þannig er elsti dómurinn á vefnum frá árinu 2006 en sá nýjasti frá árinu 2021, en það er einmitt dómurinn sem féll í máli Möggu Werner. Ofbeldismaðurinn í því máli nýtur nafnverndar, er ekki nefndur á nafn í dómnum, og var einungis dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Dómarnir 17 þar sem orðið „fullorðinsleg“ birtist eru líkt og gefur að skilja hvert og eitt flókið mál. Stundum er orðið vísun í málsbætur hins ákærða. Til dæmis í máli frá árinu 2020 þar sem tæplega 17 ára piltur var sakaður um að hafa beitt tæplega 14 ára stúlku ofbeldi. „ Honum  hefði  fundist  hún  vera fullorðinsleg og  þroskuð líkamlega eins og  hún  væri  komin  í  menntaskóla,  með  smá brjóst og svipuð á hæð og hann,“ segir í þeim dómi. Sá var dæmdur en ákvörðun um refsingu var frestað og myndi falla niður haldi hann skilorði í tvö ár.

Í öðru máli frá árinu 2019 var fullorðinn maður ákærður fyrir að hafa kynferðislega áreitt þrjár stúlkur, sem þá voru allar 15 ára, og eina í viðbót, sem þá var 14 ára. Í niðurstöðu kafla dómara, Sigríðar Elsu Kjartansdóttur, segir:

„Ekkert er fram komið um að þær hafi litið sérstaklega fullorðinslega út annað  en framburður vitnisins L, sem  einungis  sá  tvær  þeirra  stutta stund, og móður C, sem sagði hana alltaf hafa verið fremur fullorðinslega. Verður í ljósi framangreinds að telja að ákærða hafi mátt vera ljóst að stúlkurnar voru um 15 ára gamlar eða a. m. k. allar undir 18 ára aldri þegar hann var í samskiptum við þær en ekkert er fram komið sem bendir til þess að ákærði hafi mátt vita að D væri undir 15 ára aldri.“

Sá maður, sem nýtur nafnverndar, fékk ekki þungan dóm. Hann var dæmdur í fangelsi í fjóra mánuði, alfarið skilorðsbundið.

Svo vill til að Sigríður Hjaltested, sem dæmdi í máli Möggu Werner, hefur skrifað pistil um hvernig megi fækka nauðgunum. Það gerði Sigríður á Vísi árið 2010 og er óhætt að segja að skilaboðin hennar eigi ekki upp á pallborð í dag, í það minnsta hjá flestum. Sigríður segir að það megi fækka nauðgunum með forvörnum og beinir orðum sínum nær alfarið til þolenda nauðgana.

Skilja má pistil Sigríðar sem svo að ef konur hegði sér rétt verði þeim síður nauðgað. Hún tekur meðal annars saman nokkra punkta og sá fyrsti hljóðar svo: „Berðu virðingu fyrir sjálfum þér og öðrum. Ekki samþykkja það sem þú vilt ekki gera og ekki þrýsta á einhvern annan til þess að gera eitthvað sem þú telur hann ekki vilja gera. Sértu í vafa, slepptu því.“

Hér fyrir neðan má lesa pistil Sigríðar Hjaltested í heild sinni.

Í fyrri hluta umfjöllunar minnar um hvernig stemma megi stigu við nauðgunum, sem birtist hér í Fréttablaðinu í gær, var m.a. fjallað um forvarnir og gildi þeirra, nýtt samskiptamynstur fólks og tengsl þess við sönnunarstöðu í nauðgunarmálum og ungmenni í áhættuhópi.

Hvað er þá til ráða? Ungmenni á Íslandi byrja snemma að stíga sín fyrstu skref í samskiptum við hitt kynið. Það þarf því að brýna fyrir þeim í hverju eðlileg samskipti séu fólgin með fræðslu sem þarf að vera viðvarandi. Á ég þá við fræðslu um dagleg samskipti kynjanna, gagnkvæma virðingu og kynferðisleg samskipti. Í því sambandi sé lögð megináhersla á gagnkvæman vilja og samþykki. Fróðlegt væri að gera skoðanakannanir á meðal ungmenna á því hvað þau telja vera „eðlilegt“ í dag. Það segir sig nefnilega sjálft að hafi þau skakka mynd af því sem er eðlilegt nú er það líklegra en ekki til fylgja þeim út þeirra fullorðinsár. Skoða þarf hvort ekki sé tímabært að endurskoða samræmda skólanámskrá en bent hefur verið á að styrkja þurfi bæði kennara og foreldra til þess að geta rætt opinskátt við ungmenni um kynhegðun. Þá þarf að leggja áherslu á rétt viðbrögð ef nauðgun á sér stað en það er veigamikið atriði. Er þá bæði átt við að tryggja sönnunargögn og að vita hvert skuli leitað eftir hjálp.

Til fróðleiks má taka saman nokkra punkta sem eru þörf áminning:

•Berðu virðingu fyrir sjálfum þér og öðrum. Ekki samþykkja það sem þú vilt ekki gera og ekki þrýsta á einhvern annan til þess að gera eitthvað sem þú telur hann ekki vilja gera. Sértu í vafa, slepptu því.

•Ekki tala í hálfkveðnum vísum er þú lætur vilja þinn í ljós – sendu skýr skilaboð ef þess er nokkur kostur.

•Þú mátt segja „nei“ jafnvel þótt þú sért með því að skipta um skoðun.

•Ekki láta undan þrýstingi um að hitta einhvern eða fara með einhverjum sem þú þekkir ekki, farðu aldrei ein/einn.

•Ekki taka þátt í neinu sem þú sérð að er rangt. Taktu afstöðu með þeim sem hallar á.

•Mundu að fara vel með áfengi og verðir þú viðskila við vinahóp eftir að áfengis hefur verið neytt skaltu fá einhvern sem þú treystir, helst fjölskyldu, til þess að fylgja þér heim.

•Ekki senda myndir af þér fáklæddri/-um eða sýna þig þannig í vefmyndavél. Þú veist aldrei hvert efnið getur farið að lokum eða í hvaða tilgangi það er notað.

•Mundu að vista samskipti þín á netinu.

•Ekki hika við að leita ráða og/eða hjálpar.

Við getum öll verið sammála því að hlúa þurfi að og veita þolendum nauðgana nauðsynlega aðstoð. Á þetta við hvort sem þeir taka ákvörðun um að kæra verknaðinn eða ekki. Í þessu sambandi hvílir mikil ábyrgð á þeim sem fyrst fá upplýsingar eða grunar að nauðgun hafi átt sér stað.

Áhrifaríkasta aðferðin að mínu mati við að stemma stigu við nauðgunum er forvarnir. Í því sambandi má nefna að þörf er á opinni og upplýstri umræðu þar sem fjallað er um nauðganir á málefnalegan hátt og frá ýmsum hliðum. Það er nefnilega staðreynd að fjaðrafok og rangtúlkanir eru aðeins til þess að draga kjarkinn úr fólki. Þeir aðilar sem koma að þessum málum þurfa að viðurkenna hlutverk hvors annars og treysta því að unnið sé af heilindum.

Nauðsynlegt er að forvarnir nái til barna strax á grunnskólastigi þar sem það að stemma stigu við nauðgunum er gert að markmiði vinnunnar. Slíkt forvarnastarf þarf að vera öflugt og í takt við þá vinnu sem SAFT hratt af stað í tengslum við örugga netnotkun. Slíkt verkefni væri hverrar krónu virði.

Þá þarf forvarnastarf einnig að ná til fullorðinna einstaklinga. Skyndikynni eru mjög algeng í dag og eiga sér því miður allt of oft stað þegar dómgreindin er skert, t.d. vegna neyslu áfengis. Einnig hefur „stefnumótamenning“ rutt sér til rúms með tilkomu samskiptasíðna. Þar er boðið upp á nánast hvað sem er og gengið út frá því að fólk gangi með opnum huga til leiks.

Efla þarf miðlæga deild lögreglunnar sem sinnir kynferðisbrotamálum. Eins og sakir standa og vegna sparnaðar í kerfinu er uppbygging deildarinnar í dag ekki eins og að var stefnt. Miklu af upplýsingum og þekkingu er fyrir að fara í deildinni sem nauðsynlegt er að greina og vinna úr. Að mínu mati væri kostur að sérstakur forvarnafulltrúi starfaði í deildinni eða í tengslum við deildina, sem sinnti þessum málum eingöngu.

Að sjálfsögðu er lögreglan reiðubúin til þess að leggja sitt að mörkum til þess að stemma stigu við nauðgunum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí