Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi VG, lýsir því sem bíður þeirra sem eiga erindi við Útlendingastofnun í pistli sem hann birtir á Facebook. Lýsingin minnir einna helst á forgarð helvítis en Stefán segir að minnsta bið sé um klukkutími. Ekki séu sæti fyrir nema um helming þeirra sem þurfa að bíða eftir afgreiðslu.
Hér fyrir neðan má lesa upplifun Stefáns á því að þurfa að sækja þjónustu hjá Útlendingastofnun.
Um daginn átti ég leið í móttökuna hjá Útlendingastofnun. Fyrir nokkrum misserum jókst blóðþrýstingurinn og ég fann hreinlega til líkamlegra óþæginda við það eitt að stíga inn í húsið, en í dag virðist það blessunarlega liðið hjá að mestu.
Það hefur samt lítið breyst. Á pósthúsum og sumum apótekum tekur maður miða eftir því hvert erindið sé, en hjá ÚTL er bara einn miði – allir bíða í sömu röðinni óháð því hvort erindið sé flókið og kalli á langt samtal eða hvort tilgangurinn sé bara að sækja skírteini sem tilbúið er til afhendingar. Og það eru alltaf lágmark 15-20 á undan manni í röðinni og afgreiðslan lokar kl. tvö.
Minnsta bið er 45 mínútur til klukkutími og það eru sæti fyrir svona helming þeirra sem bíða. Það gefst því nægur tími til að líta í kringum sig og virða fyrir sér fólkið. Það er alltaf einn Íslendingur sem er gjörsamlega búinn að missa þolinmæðina og talar viljandi mjög hátt í símann við einhvern félaga sinn um hvað honum sé misboðið að vera mættur í sjötta sinn á fáeinum dögum og þurfa að bíða í einn og hálfan tíma útaf einhverjum stimpli sem enginn geti svarað hvar sé hægt að fá. Þarna er yfirleitt líka einn frekar pirraður Vesturlandabúi frá landi utan EES, oftar en ekki Kanadadamaður, sem augljóslega gæti verið að gera eitthvað skemmtilegra. Og svo er hópur af fólki frá fátækari löndum sem eru orðin vön þessu eða sýna amk engin svipbrigði.
Reiði Íslendingurinn fær alltaf afgreiðslu rétt á undan manni og það verður mjög snemma ljóst í samtali hans við þjónustufulltrúann að hann mætti aftur með rangan stimpil. Hann strunsar út og lætur alla viðstadda vita að næstu samskipti hans við stofnunina verði í gegnum lögfræðing