„Páll Orri er að bjóða sig fram í formann Heimdallar
Kosið er á mánudaginn 3. apríl kl. 20:30 í Valhöll – hægt er að skrá sig í flokkinn á xd.is. Þarf að breyta lögheimili, tekur 1 mín, á skra.is
Breyta í þetta heimilisfang
Frakkastígur 8c hæð 4 íbúð 418
BESTI PARTURINN við að gera þetta einfalda concept. Beer á Skugga á föstudaginn!“
Svo hljóða skilaboð sem voru birt í Snapchat-hópi á vegum Páls Orra Pálssonar, sem berst um að verða formaður Heimdals, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Líkt og skilaboðin gefa til kynna þá er ýmsum ráðum beitt til að smala atkvæðum. Heimilisfang sem verið er að biðja fólk um flytja á heimilisfang Mikael Harðarssonar, bandamanns Páls Orra.
Hringbraut greinir frá þessu og segir heimildir fyrir því að margir í hópnum séu undir lögaldri. Aðalfundur Heimdals verður haldinn í kvöld og verður nýr formaður kosinn. Þar takast á fyrrnefndur Páll Orri og Júlíus Viggó Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sambands íslenskra framhaldsskólanema.