Hópur Sjálfstæðismanna ræðir nú af alvöru hvort þeir eigi að slíta sig frá flokknum og stofna nýjan flokk. Sá flokkur eigi að vera alvöru hægri flokkur. Í það minnsta ef marka má Óðinn, nafnlausan ritstjórnarpistil í Viðskiptablaðinu.
„Í fyrsta sinn í langan tíma er alvarleg umræða meðal flokksmanna Sjálfstæðisflokksins að stofna hægri flokk. Óðinn ætlar nú ekki að gerast spámaður um hvort af verður. Líkurnar á því aukast verulega er núverandi forysta flokksins víkur ekki af sjálfsdáðum, fyrr en seinna,“ segir í Viðskiptablaðinu. Samkvæmt Óðni getur enginn af núverandi forystu leitt þennan nýja flokk.
Óðinn segir ríkisstjórnina einfaldlega vonlausa. „Fylgið við ríkisstjórnarflokkanna er í frjálsu falli þessa dagana. Það hefur minnkað um 10,6% frá því í október. Það kemur engum á óvart. Það er öllum að verða það betur og betur ljóst að ríkisstjórnin er ábyrg fyrir verðbólgubálinu sem logar glatt. Og eins og Óðinn fjallaði um fyrir tveimur vikum þá hefur ríkisstjórnin ekkert gert til að draga úr ríkisútgjöldunum sem er stór ástæða verðbólgunnar. Óðinn ætlar reyndar að spá því að ef verðbólgan helst há næstu mánuðina muni fylgi ríkisstjórnarflokkanna halda áfram að hrynja.“
Óðinn heldur svo áfram, ræðir nokkuð um gervigreind, en líkur svo pistlinum svo: „Mikil umræða er þessa dagana um gervigreind. Óðinn er hins vegar uppteknari að hinni gömlu gervigreind. Þeim greindarskorti sem vinstri menn um alla veröld hafa þjáðst af í efnahagsmálum. Það sem er hins skelfilegast er að allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins virðist orðinn sýktur af gervigreind í efnahagsmálum. Nú eða sárþjáður af meðvirkni í garð eyðslusamra ráðherra flokksins.“