Þegar tilkynnt var um endurnýjaðan ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG tilkynnti Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins að Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, tæki við að Jóni Gunnarssyni sem dómsmálaráðherra „eftir að hámarki átján mánuði“. Þetta sagði Bjarni rétt fyrir hádegið 28. nóvember 2021. Átján mánuðirnir eru því liðnir á hádegi 28. maí 2023, á morgun.
Fljótlega varð ljóst að Bjarni hafði komið sér í vanda með þessari yfirlýsingu. Jón Gunnarsson hefur í störfum sínum reynt að kynda undir útlendingaandúð til að verja fylgistap frá Sjálfstæðisflokknum yfir til Miðflokksins og tekist svo vel að Bjarni lét landsfund flokksins klappa sérstaklega fyrir Jóni. Og Jón hefur sótt það fast að halda áfram sem ráðherra. Eitt sem flækir stöðuna meira er að ef Jón fer í fýlu og hættir á þingi þá tekur við af honum varaþingmaðurinn Arnar Þór Jónsson sem hefur gagnrýnt forystu flokksins harðlega, lagði til dæmis til að hún segði öll af sér um daginn.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst illa í skoðanakönnunum allt frá umdeildri sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka undir forystu Bjarna fyrir rúmu ári. Og kannanir hafa sýnt lítið traust á Bjarna sjálfan. Og hratt minnkandi traust á ríkisstjórninni. Þrátt fyrir þetta var Bjarni endurkjörinn formaður á síðasta landsfundi. Sumir landsfundagesta kusu Bjarna af því þeir vildu hafa hann sem formann. Aðrir kusu hann vegna þess að þeir vildu alls ekki fá Guðlaug Þór Þórðarson sem formann og sáu fyrir sér að Bjarni myndi hætta sem formaður með góðum fyrirvara fyrir næsta landsfund svo Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fengi tíma til að sanna sig í embætti formanns áður en næsta formannskosning færi fram. Næsti landsfundur ætti að verða um haustið 2024 eða snemma árs 2025, að því gefnu að stjórnin haldi lífi og kosið verði til þings í september 2025.
Þegar þetta tvennt er lagt saman er ekki að undra að sögusagnir hafi komist á kreik um að Bjarni gæti tilkynnt strax eftir þinglok að hann væri hættur í pólitík og myndi snúa sér að því að sinna fjárfestingarfélagi foreldra sinna og systkina. Með stefnu sinni í fjármálaráðuneytinu hefur hann aukið mjög við auð þess félagsins, eins og fjármagnseigenda yfirleitt, með því að halda sköttum lágum á auðfólk og reka efnahagsstefnu sem fyrst og fremst þjónar allra auðugasta fólki landsins. Gott gengi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum eftir formannsskiptin hefur ýtt undir kröfu meðal Sjálfstæðisflokksfólks um sambærilega andlitsupplyftingu í Sjálfstæðisflokknum. Það sama á reyndar við um Framsókn og Viðreisn.
Það er fátítt núorðið að stjórnmálafólk sé jafn lengi á formannsstóli eða ráðherraembætti og Bjarni. Í vikunni voru tíu ár síðan hann varð fjármálaráðherra og á mánudaginn verða fjórtán ár og tveir mánuðir síðan hann var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Bjarna vantar enn rúma fimm mánuði til að ná setu Davíðs Oddssonar á formannsstóli, Bjarni myndi ná því 5. nóvember næstkomandi. Handan Davíðs er aðeins Ólafur Thors með sín 27 ár á formannsstóli.
Til samanburðar við rúmlega fjórtán ára formennskutíð Bjarna hefur Erna Solberg verið formaður Íhaldsflokksins í Noregi 19 ár en enginn annar formaður stóru flokkanna á Norðurlöndum hefur verið lengur formaður sem Bjarni. Mette Frederiksen kemur næst, hefur verið formaður Sósíaldemókrata í Danmörku í tæp átta ár. Það eru ekki margir sem myndu spá því að hún yrði enn formaður 2029. Stjórnmálafólk dugar ekki áratugum saman eins og tímum Ólafs Thors, kjósendur fá leið á því og flokkarnir reyna að stilla fram nýju fólki.
Frá því að Bjarni varð fjármálaráðherra hafa sjö manns verið fjármálaráðherrar í Bretlandi og fimm í Bandaríkjunum, þrír í Þýskalandi og þrír í Frakklandi.
Margaret Thatcher var formaður Íhaldsflokksins í Bretlandi í rúm fimmtán ár og skilaði flokknum kosningasigri þrívegis, 1979, 1983 og 1987. Angela Merkel var formaður Kristilegra demókrata í Þýskalandi og skilaði flokknum fjórum góðum kosningum í röð; 2005, 2009, 2013 og 2017. Bjarni á enga slíka sögu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sex sinnum fengið minna en 30% fylgi í kosningum. Bjarni á fimm af þessum sex skiptum. Hann er sá formaður flokksins sem hefur skilað lökustum árangri í kosningum og á hans vakt klofnaði flokkurinn.