Bankarnir eru að lána of mikið til fyrirtækja og það magnar upp verðbólguna

Ólafur Margeirsson hagfræðingur segir að ein ástæða fyrir verðbólgunni sé hegðun íslenskra banka. Þetta segir hann í pistli sem hann birtir á Patreon-síðu sinni, en þar er hægt að gerast áskrifandi að pistlum hans. Ólafur segir að útlán bankanna séu að þenjast of mikið og of hratt út til rangra aðila. Nýlega hafa bankarnir lánað fyrirtækjum umtalsvert meira en áður. Á móti kemur samdráttur í lánum til byggingaverktaka, sem Ólafur segir að aldrei hefði átt að gerast.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Ólafs í heild sinni.

Nú er verðbólga enn í kringum tveggja stafa tölu og margir undra sig á því. Ein stór ástæða er að lán banka eru að þenjast út of mikið og of hratt: aðgengi að lánsfé er of auðvelt, jafnvel þótt það sé dýrt (sem er nákvæmlega það öfuga við það sem Keynes hélt fram að ætti að vera raunin m.v. Bretland á 4. áratug síðustu aldar – „money should not be easy but cheap“ – en það er önnur saga).

Hér má sjá hvernig útlán bankakerfisins til innlendra aðila hafa þróast síðan 2014. Þessir rúmlega 1000 milljarðar sem búnir hafa verið til af bankakerfinu síðan í byrjun árs 2020 er um þriðjungs aukning á útistandandi lánum bankanna á aðeins þremur árum. Það hlýtur að vera tillviljun ein að verðbólga sé há í kjölfarið á slíkri útlánaaukningu!

Ef við horfum svo á hvert þessi lánaaukning hefur farið var það fyrst og fremst til heimila í kringum og upp úr 2020. Þessi lánaaukning setti kraftinn í fasteignamarkaðinn sem keyrði upp verð á fasteignum. Síðasta árið eða svo hefur lánaukningin sérstaklega farið til fyrirtækja, m.a. því þau hafa þurft að fjármagna hærri innflutningskostnað í kjölfar mikillar verðbólgu erlendis sem nú er verið að flytja inn til Íslands (verðbólgan í dag hefur lítið með krónuna að gera sem hefur verið að dunda sér í kringum ca. 185 til 200 á gengisvísitölunni síðan 2021). Innflutningskostnaðurinn og hinn aukni fjármagnskostnaður hefur svo verið færður af fyrirtækjum yfir í almennt verðlag, þ.e. á neytendur.

Það er svo sérstakt vandamál að fyrir utan að lánaukningin sé of mikil er hún ekki að fara í réttu hlutina. Það er auðveldast að draga fram útistandandi lán banka til byggingarverktaka í þessu sambandi.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd dró verulega úr útistandandi lánum banka til byggingarverktaka árið 2020 og allt fram til ársloka 2021. Að raunvirði var samdrátturinn samtals í kringum 20% frá mars 2020 til október 2021, sem að meirihlutanum til var vegna samdráttar í útistandandi lánum frekar en vegna hækkunar á almennu verðlagi. Það var svo ekki fyrr en nýlega að útistandandi lán byggingarverktaka náðu þeirri tölu sem þau stóðu í áður en COVID skall á.

Vandamálið er í stuttu máli að útlán bankanna eru að þenjast of mikið og of hratt út til rangra aðila. Síðasta árið hafa þau þanist út um 400 milljarða, þar af 220 til atvinnufyrirtækja. Þetta er of mikið og of hratt, lánaútþenslan er um 11% á ári í hagkerfi þar sem aðföng, t.d. vinnuafl, eru nær fullnýtt (sem er að hluta til vegna hallarekstursins á ríkissjóði).

Á sama tíma eru lánin ekki að fara í réttu hlutina, það þarf að beina þeim sérstaklega í hluti þar sem lánin eru nýtt til fjárfestingar sem ýtir undir framleiðslugetu hagkerfisins sem aftur dregur úr verðbólguþrýstingi. Augljósasta dæmið er byggingaverktakar sem hafa séð sín lán aukast um 58 milljarða síðasta árið sem var rétt nóg til að lyfta þeim á svipað stig af útistandandi lánum og þeir voru með fyrir COVID. Munið að því meira sem byggingarverktakar fá lánað, því meira byggja þeir og því minni verður verðlagsþrýstingurinn á fasteignamarkaði.

Samdrátturinn í lánum til byggingarverktaka hefði aldrei átt að gerast og það var m.a. vegna hans, sem og gríðarlegra lánveitinga bankanna til heimila, sem bjó til skortinn á fasteignum í dag. Og þessi skortur á fasteignum er enn að þrýsta verðlagi upp á við.

Útlán banka skipta nefnilega máli, ekki bara hversu mikil þau eru heldur einnig í hvað þau fara. Það er svo rannsóknarverkefni út af fyrir sig hvers vegna vaxtahækkanir Seðlabankans eru ekki að draga úr þessari lánaútþenslu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí