Bjarni um vandann á leigumarkaði: „Hvaða vanda er háttvirtur þingmaður að tala um?“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, virðist ekki trúa því að það sé neitt vandamál á Íslandi tengt leigumarkaðinum. Á Alþingi í gær fullyrti hann að laun hafi hækkað langt umfram leiguverð og gaf í skyn að hér væri allt í himnalagi. Þetta kom fram þegar staðan í efnahagsmálum var rædd. Nánar tiltekið þegar hann var að svara Jóhanni Páli Jóhannssyni, þingmanni Samfylkingarinnar.

Jóhann spurði Bjarna: „Nú er stutt eftir af þessu þingi. Það er húsnæðisekla og ófremdarástand á leigumarkaði, vextir og verðbólga í hæstu hæðum. Mun hæstv. fjármálaráðherra beita sér fyrir eða styðja tillögur um það hér í þingsal að lögfest verði tímabundin leigubremsa eins og var gert í Danmörku í fyrra til að koma böndum á leiguverðshækkanir?“

Þessu svaraði Bjarni: „Ég ætla aldrei að útiloka það í einhverri stuttri ræðu hér í þinginu að eitthvað komi til greina. Það er alls ekki ætlun mín. Ég hef hins vegar sagt að það eru ákveðin atriði sem ber að varast við það að grípa inn í markaðinn og banna ákveðna hluti. Það getur beinlínis verkað í öfuga átt og t.d. of þröng skilyrði fyrir þá sem eiga húsnæði sem eru tilbúnir til þess að leigja geta valdið því á endanum að þeir selja einfaldlega húsnæðið og taka af leigumarkaði. En hvaða vanda er hv. þingmaður annars að tala um nákvæmlega, af því að mér finnst gott að taka þessa umræðu á grundvelli þess að vera með rauntölurna?,“ spurði Bjarni og hélt áfram:

„Nú hafa laun hækkað um 18,8% síðustu 24 mánuði, 18,8% á 24 mánuðum. Á sama tíma hefur greidd húsaleiga hækkað um 12,5% — 12,5%. Laun hafa hækkað langt umfram leiguverð. Eða eigum við að skoða hvernig leiguverð hefur þróast í samhengi við húsnæðisverð? Húsnæðisverð hefur hækkað frá 2015 um 33% en leiga hefur hækkað um 15%. Ef það á að koma með aðgerðir sem eiga að bregðast við ástandi þá þurfum við að byrja á því að vera sammála um hvað það er sem er að.“

Þessu svaraði Jóhann Páll með einu hnitmiðuðu framíkalli: „Stígðu út úr excel-skjalinu og talaðu við fólk.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí