Verðbólga og gríðarlegur vandi á húsnæðismarkaði eru stærstu áskoranir á vettvangi efnahagsmála hér á landi á næstu misserum. Því vekur vonbrigði að stjórnvöld hyggist ekki bregðast við þessum stóru og vandasömu verkefnum. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2024-2028.
Í umsögninni segir að útgjöld hafi vaxið umfram áætlanir. Gagnrýnt er að ekki sé ráðist í skynsamlega tekjuöflun. Tekjuauka sem skýrist af stöðu hagsveiflunnar sé því ráðstafað í útgjöld og nýtist því ekki til að draga úr opinberum skuldum.
Röng forgangsröðun stjórnvalda
Áherslur ríkisstjórnarinnar í skattamálum eru gagnrýndar með þeim rökum að þær hafi beinlínis gengið gegn hjöðnun verðbólgu er þá vísað til skatta- og gjaldahækkana um síðustu áramót sem stóðu undir meira en helmingi hækkunar vísitölu neysluverðs í janúarmánuði. Í umsögninni telur sambandið að beita hefði þurft annarri tekjuöflun við svo hátt verðbólgustig, „ASÍ telur að ganga þurfi lengra í eflingu tekjustofna hins opinbera og að horfa þurfi m.a. til auðlindagjalda og umbóta í skattlagningu fjármagnstekna,” segir m.a. í umsögninni. Er þar m.a. vísað til þess að auðlindarenta í sjávarútvegi hafi numið 56 milljörðum á árinu 2021.
Sögulega mikill rekstrarafgangur fyrirtækja
Í umsögninni er bent á sögulega sterka afkomu fyrirtækja á síðasta ári sem endurspeglast í lækkun launahlutfalls í hagkerfinu. Rekstrarafgangur í heild- og smásöluverslun jókst um 20% á síðasta ári og í auðlindagreinum og mannvirkjagerð var vöxturinn meiri. Tölurnar gefa til kynna þann hvalreka sem hlaust af hækkun hrávöru- og húsnæðisverðs.
Aðgerðir skorti á húsnæðismarkaði
Í umsögninni er einnig gagnrýnt að ekki sé að finna markvissar aðgerðir til að ná niður verðbólgu eða styðja við afkomu heimila. Þar sé einnig ekki að finna aðgerðir til að mæta miklum vanda á húsnæðismarkaði. Sá vandi lýsir sér í hærri húsnæðiskostnaði og vaxandi íþyngjandi húsnæðiskostnaði eigenda og leigjenda. Í umsögninni er vakin athygli á auknu þröngbýli á húsnæðismarkaði, „Tölur Hagstofunnar benda einnig til þess að þröngbýli hafi aukist en með þröngbýli er átt við að aðilum fjölgar um hvert herbergi. Þröngbýli fer hraðast vaxandi meðal hinna tekjulægstu. Um er að ræða aðra birtingarmynd húsnæðisvanda sem ekki hefur verið vandamál í áratugi á íslenskum húsnæðismarkaði.
Í umsögninni varað við hættunni á að dregið gæti úr nýbyggingum á næstunni og bent á að stjórnvöld verði að tryggja framboð lóða og ráðstafa meiri fjármunum í uppbyggingu almennra íbúða ef markmið um 35 þúsund íbúða uppbyggingu á næstu tíu árum eigi að nást. Það er einnig kallað eftir umbótum á húsaleigulögum og sértækum stuðningsaðgerðum til að draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði heimila.
Frétt af vef ASÍ. Umsögn um fjármálaáætlun má nálgast í heild sinni hér.