„Magnað að segja almúganum að halda að sér höndum en halda um leið dýrustu sýningu Íslandssögunnar í hans boði“

Birgir Örn Guðjónsson, lögreglumaður í Hafnarfirði, betur þekktur sem Biggi lögga, bendir á í pistli sem hann birtir á Facebokk að það sé full ástæða fyrir því að fólk á Íslandi sé reitt og fullt af vantrausti. Hann segir að leiðtogafundurinn í Reykjavík hafi verið rándýr sýning en enginn fundur.

Hér fyrir neðan má lesa pistil hans í heild sinni.

Auðvitað fer seðlabankastjóri til útlanda í frí. Í sjálfsbjargarviðleitni hafa sumarþyrstir Íslendingar með alvarlegan d-vítamínskort eðlilega legið dreymandi á netsíðunum í leit að geðhjálpar fríi úr grámyglunni. Seðlabankastjórinn hefði því að sjálfsögðu átt að sleppa því að skamma þjóðina fyrir að vilja gera það sama og hann vill sjálfur. Við lifum á afskekktri eyju norður í ballarhafi og fólk mun ferðast, jafnvel þótt það hafi ekki efni á því.

Auðvitað þarf ná verðbólgunni niður. Stíflugerð á húsnæðismarkaði er samt lítið annað en hlandvolgt og illa lyktandi piss í lakkskóinn. Þessi skítredding með því að reyna að binda húsnæðismarkaðinn með teygju er óþolandi fyrir alla. Hvað heldur fólk að gerist þegar mokað verður frá stíflunni með lækkandi vöxtum? Að sjálfsögðu hlaupa allir til sem neyðast núna til að bíða á hliðarlínunni og verðbólgunni verður sparkað aftur upp í loft.

Auðvitað þarf fólk að leigja sér húsnæði og sumir kjósa sér það. Sú þörf verður enn meiri núna þegar erfiðara er að komast á húsnæðismarkaðinn. Einhverjir eiga samt að sjálfsögðu þessar íbúðir og hærri vextir þýðir hærri afborgun af húsnæðislánum sem skilar sér í hærra leiguverði, auk þess sem aukin samkeppni um hverja íbúð þrýstir verðinu upp. Allir tapa. Nema bankinn. Að sjálfsögðu.

Auðvitað vilja æðstu ráðamenn þjóðarinnar réttláta launahækkun í takt við aðra. Þeir lifa jú í sama samfélagi og við hin, ótrúlegt en satt. Lykilorðin í því réttlæti eru samt „í takt við aðra“. Þess vegna er galið að það sé ekki þak á þeirra hækkun eins og farið var fram á við aðrar stéttir. Þið munið, „sama samfélag og við hin“. Hljóð og mynd verða að fara saman.

Auðvitað vildu stjórnvöld halda risa leiðtogafund á landinu. Fullt af háttsettu liði á fundi við hliðina á glænýrri bankahöll. Gallinn var bara sá að fundurinn kostaði fáránlega marga milljarða á tímum sem við höfðum augljóslega á engan hátt efni á honum. Þar að auki virðist þetta hafa verið meiri sýning en fundur. Sjálfur heiðursgesturinn sá það vel og ákvað að vera bara heima, þrátt fyrir að við höfðum splæst í hann 200 manna einkaflug. Það er magnað að segja almúganum að halda að sér höndum en halda um leið dýrustu sýningu Íslandssögunnar í hans boði.

Auðvitað viljum við njóta lífsins og afraksturs vinnu okkar. Það er frekar niðurdrepandi að heyra það að lausnin út úr vandanum sé að láta okkur líða bara nógu illa. Ef við hættum að ferðast, borða, versla, skemmta okkur og helst að fá útborgað þá mun allt lagast. Ef við fórnum okkur, aftur, þá mun verbólgan minnka og þá megum við byrja aftur. Það er kannski líka extra pirrandi þegar við sjáum að það er ekki verið að gera allt sem hægt er að gera til þess að laga stöðuna. Það eru tvær þjóðir í þessu landi og þið vitið hver á að fórna sér. Það er orðið pínu þreytt.

Auðvitað er fólk reitt og fullt af vantrausti. Heimilin eru hýdd til hlýðni og sagt að halda sig á mottunni sem stjórnvöld sitja sveitt við að vefa í stað þess að vinna að raunverulegum lausnum. Við höfum öll verið hér áður. Við þekkjum þetta handrit. Því miður virðumst við vera með ráðamenn sem þora ekki öðru en að senda reikninginn á þá sem eiga ekki fyrir honum. Það er óþolandi. En samt kannski örlítið skárra ef við gerum það af sólbekk á Tene eða úr brúðkaupi á Ítalíu. Auðvitað.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí