Viðtal við Gunnar Þór Gíslason, stjórnarformann Ölmu, um helgina í Sprengisandi á Bylgjunni hefur vakið hörð viðbrögð hjá mörgum. Þá sérstaklega fullyrðing Gunnars Þórs um að leiguverð væri of lágt en hann boðar hækkun þess.
Samtök leigjenda á Íslandi segja að viðtalið við Gunnar Þór hafi verið drottningaviðtal þar sem stjórnarformaðurinn hafi komist upp með lygar vegna vanþekkingar spyrilsins. Samtökin skrifar á Facebook:
„Það var um margt skrítið að hlusta á stjórnarformann Ölmu leigufélags í Sprengisandi á Bylgjunni um helgina. Þar fór maðurinn með hinar ýmsu rangfærslur sem hann komst upp með sökum vanþekkingar spyrilsins á málefninu. En vert er að benda á að Alma hefur skorast undan því að mæta fulltrúa leigjenda í viðtölum og eiga þá rökræður við fólk sem hefur þekkingu á málefnum skjólstæðinga Ölmu, leigjenda.“
Samtök leigjenda segja að Gunnar Þór hafi varpað fram stórfurðulegri framtíðarsýn á Sprengisandi. „Þess í stað fékk Stjórnarformaður Ölmu áðurnefnt drottningarviðtal við spyrill sem leyfði honum að komast upp með ósannsögli og útvarpa einhverri furðulegri framtíðarsýn þar sem fjölskyldur deila leiguhúsnæði, jafnvel skipta niður tíma í því af þvi að það er svo dýrt að leigja,“ segja samtökin.
Þau segja að það væri tæki of langan tíma að hrekja það sem Gunnar Þór sagði lið fyrir lið. „Byrjum á þeirri fullyrðingu að það sé þörf á því að hækka leigu því hún hafi staðið í stað miðað við þróun annara hagstærða. Hér að neðan er línurit sem sýnir þróun leiguverðs, verðlags og fasteignarverð. Tölur fengnar frá Hagstofu Íslands.“