Segir Þorstein hrokafullan og að stjórnendur fyrirtækja valdi verðbólgunni

Dýrtíðin 28. maí 2023

Stefán Ólafsson segir málflutning Þorsteinss Víglundssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra SA og núverandi forstjóra Horn­steins, vera í senn hrokafullan og algerlega á skjön við staðreyndir. Þorsteinn kenndi verkalýðshreyfingunni bæði um verðbólguna sem nú geisar og vaxtahækkanir Seðlabankans, í nýlegri grein grein á Vísi. Stefán telur ekkert nýtt í þessu hjá Þorsteini, hann hafi áður tuggið upp þennan áróður atvinnurekenda, sem bæði Seðlabankinn og talsmenn ríkisstjórnarinnar virðast nú illu heilli hafa tekið undir.

„En hverjar eru staðreyndirnar?“ spyr Stefán. Og svarar sér sjálfur:

„Ef of mikil kaupmáttaraukning launa hefði verið í hagkerfinu á þessum tíma sem verðbólgan hefur verið að blossa upp þá hefði það átt að koma fram í því að hlutur launafólks af verðmætasköpuninni í landinu hefði aukist og hlutur fyrirtækja- og fjármagnseigenda hefði þá átt að vera að lækka. En þróunin hefur verið algerlega á hinn veginn.

Í aðdraganda þess að verðbólgan fór á skrið (2018-2020) og svo alveg til dagsins í dag hefur hlutur launafólks af verðmætasköpuninni verið að minnka umtalsvert og hlutur fyrirtækja- og fjármagnseigenda að aukast. Það segir okkur að verðbólgan er fyrst og fremst hagnaðardrifin en ekki launadrifin. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, þ.e. á skyggða svæðinu. Brotalínan sýnir verðbólguna.

Hlutur launafólks var kominn úr 64% 2018 niður í 59% af verðmætasköpuninni í fyrra og fer væntanlega niður í 57% á yfirstandandi ári. Langtímameðaltal á hlut launafólks er 62% (1973 til 2022). Staða launafólks í heild er því orðin óviðunandi. Hlutur fyrirtækja- og fjármagnseigenda jókst á sama tíma úr 36% upp í um 43% á þessu ári og búa fyrirtækin nú við methagnað. Það er beint samband milli aukins hlutar fyrirtækja af þjóðarkökunni og aukinnar verðbólgu.

Láglaunafólk fékk mestu kaupmáttaraukninguna út úr Lífskjarssamningnum 2019-2022 vegna hinna flötu krónutöluhækkana sem þar var beitt, en aukning heildar launakostnaðar fyrirtækja varð samt hófleg, því hlutfallsleg hækkun meðal og hærri launa var lægri en hjá láglaunafólki. Raunar var launahækkunin þó almennt of lítil miðað við góðan gang í verðmætasköpuninni. Það sýnir myndin á skýran hátt.

Þó Seðlabankinn birti tölur um að laun hafi hækkað hlutfallslega meira hér en í grannríkjunum þá er það eðlilegt, vegna þess að verðmætasköpunin hefur verið meiri hér og verðlag hærra. Ef áfram verður hlustað á áróður atvinnurekenda og hagfræðinganna í Seðlabankanum þá mun hlutur launafólks af verðmætasköpuninni minnka enn frekar. Verkalýðshreyfingin þarf því að halda sínu striki frá Lífskjarasamningnum.

Niðurstaðan er augljós. Verðbólgan nú er fyrst og fremst hagnaðardrifin en ekki launadrifin. Það eru því stjórnendur fyrirtækja sem eru sökudólgarnir en ekki verkalýðshreyfingin!“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí