Stjórnvöld þurfa að gera meira til að verja kaupmátt almennings

Efnahagurinn 2. maí 2023

„Ríkisstjórnin þarf að að gera meira til að styðja við peningastefnuna og verja kaupmátt almennings. Stíga þarf markviss skref til að vinna gegn fákeppni,“ skrifar Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur BHM á vef samtakana. Og bendir á að hagur fyrirtækjaeigenda hefur batnað á sama tíma og verðbólgan étur upp kaupmátt almennings.

„Hlutdeild fyrirtækja í verðmætasköpun hagkerfisins jókst milli áranna 2021 og 2022 og framleiðni hefur aukist umfram laun á tíma núverandi ríkisstjórnar,“ skrifar Vilhjálmur. „Verðbólga jókst hlutfallslega mest á Íslandi í alþjóðlegum samanburði horft til síðustu 6 mánaða. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri umsögn BHM um fjármálaáætlun 2024-2028.“

Vilhjálmur leggur síðan mál sitt fram með skýringum:

Verðbólga aukist hlutfallslega mest á Íslandi

Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann dróst saman um nær 2% á árinu 2022. Er þetta í fyrsta skipti sem samdráttur mælist á þennan mælikvarða frá 2012. Verðbólgan hefur þá aukist hlutfallslega mest á Íslandi síðustu 6 mánuði, í alþjóðlegum samanburði. Ljóst er að verðbólgan heldur áfram að rýra kjör almennings í landinu.

Hagur fyrirtækja vænkast á verðbólgutímum

Hlutdeild fyrirtækjaeigenda í verðmætasköpun á einkamarkaði jókst milli áranna 2021 og 2022 meðan kaupmáttur almennings rýrnaði. Rekstrarafgangur jókst t.a.m. um 6% umfram verðbólgu í verslun milli áranna 2021 og 2022. Aukningin nam þá 22% að raunvirði í byggingaiðnaði og 12% að raunvirði í sjávarútvegi.

Er þetta framhald af lengri tíma þróun en rekstrarafgangur á hverja vinnustund á einkamarkaði hefur aukist um 25% á umfram verðbólgu á tíma núverandi ríkisstjórnar 2018-2022. Á sama tíma hefur launakostnaður dregist saman að raunvirði. Ójöfnuður er að aukast milli fjármagnseigenda og launafólks.

Nær þrefalt meiri hagvöxtur en 80% sveiflukenndari

Á þessari öld hefur íslenska hagkerfið vaxið nær þrefalt á við Evrópulöndin að meðaltali en verið mun óstöðugra. Sé horft til staðalfráviks hagvaxtar hefur hagkerfið verið nær 80% sveiflukenndara en Evrópa og tvisvar sinnum sveiflukenndara en Danmörk, svo dæmi séu tekin. Gangi hagvaxtarspár ársins 2023 og 2024 eftir mun hagkerfið halda áfram að vaxa umfram samanburðarlöndin. Spáð er þrisvar sinnum meiri hagvexti hér en á evrusvæðinu árin 2023 og 2024.

Stjórnvöld þurfa að gera meira til að verja kaupmátt almennings

Ísland er óstöðugt hagkerfi í eðli sínu og hlutverk hins opinbera í sveiflujöfnun því mikilvægara hér en í öðrum löndum. Ábyrg fjármálastjórn og skilvirkt samspil fjármála- og peningastefnu skiptir miklu máli og sérstaklega á verðbólgutímum. Að mati BHM þarf ríkisstjórnin að gera meira til að verja kaupmátt almennings og styðja við peningastefnuna:

  1. Styrkja þarf undirliggjandi afkomu: Það veldur BHM vonbrigðum að undirliggjandi afkoma hafi verið veikt kerfisbundið frá 2019 vegna breytingar á tekjuskatti einstaklinga, lækkunar bankaskatts og tryggingagjalds, hækkunar á frítekjumarki fjármagnstekna og hækkunar á skattfrelsismarki erfðafjárskatts. Afla þarf nýrra tekna og styrkja tekjustofna sem leiða af fjármagni og eignum.
  2. Hætta ætti að styðja við atvinnugreinar í þenslu: Skýra þarf af hverju ferðaþjónustan og byggingaiðnaður halda áfram að njóta skattalegra ívilnana í formi lægri virðisaukaskatts eða endurgreiðslu virðisaukaskatts. Mikil þensla hefur verið í greinunum undanfarið og byggingaiðnaður t.a.m. verið sögulega arðbær.
  3. Auka þarf tekjuöflun af sameiginlegum auðlindum: Stjórnvöld þurfa að skýra betur hvernig veiðigjaldið verður endurskoðað.
  4. Auka þarf jafnræði í skattlagningu: Girða ætti fyrir tekjutilflutning milli launa og fjármagnstekna. Hin norræna nálgun um tvíþætt skattkerfi með hlutleysi í skattlagningu fjármagns og vinnuafls ætti að vera leiðarljós í þessum efnum.
  5. Efla þarf samkeppnisinnviði: Stjórnvöld þurfa að efla samkeppnisinnviði og kalla eftir skýringum frá fyrirtækjum á miklum verðhækkunum. Nýtt verðlagseftirlit stjórnvalda „Matvörugáttin er að mörgu leyti gallað og líklegt til að auka verðsamráð milli verslana fremur en að auka eftirlit með verðlagi.

Vilhjálmur kemur að Rauða borðinu í kvöld, þriðjudag, og ræðir þessa sviðsmynd.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí