Sænska leigufélagið Heimstaden, sem á um 1700 íbúðir á Íslandi, tilkynnti nýlega að það ætlaði að hætta starfsemi á Íslandi. Sumir leigjendur hjá félaginu fengu uppsagnabréf í gær, flestir ýmist á Selfossi eða á Ásbrú. Innan Facebook-hóps íbúa á Ásbrú hafa margir ekki enn fengið bréf og lýsa mikilli vanlíðan.
Þegar Heimstaden tilkynnti að það myndi hætta starfsemi á Íslandi var talað um að félagið myndi selja allar eignir. Í uppsagnabréfi, sem kona nokkur frá Selfossi birtir innan Facebook-hópsins Umræðuhópur leigjenda, er þetta orðað öðru vísi. „Líkt og fram kom í tilkynningu frá Heimstaden þann 10. maí sl. hefur félagið ákveðið að minna eignasafnið sitt á Íslandi. Íbúðiin sem þú ert með á leigu er hluti þeirra eigna sem Heimstaden hyggst selja úr safni sínu,“ segir í bréfinu en uppsagnafrestur er 12 mánuðir.
Innan Facebook-hóps íbúa á Ásbrú eru talsverðar umræður um hvort fólk hafi fengið uppsagnarbréf frá Heimstaden. Svo virðist sem það fari eftir stærð íbúðar hvort fólk hafi fengið bréf. „Ég er að spá, Þeir sem hafa fengið uppsagnarbréf, eruð þið öll í 4 eða 5 herb íbúðum ? Ég er með hnút í maganum að fá bréf til mín. Ég er í 3 herb í 1102,“ skrifar ein kona.
Fleiri taka undir og segjast mjög stressaðar um að fá bréf. „Sama hér er mjög stressuð og líður mjög illa,“ skrifar nágranni hennar. Annar segir: „Ég er að farast úr stressi og hræðslu svo er ekkert talað um þetta í fréttum eða neitt meira hvert á fólk að fara,þurfum við ekki að fara að láta í okkur heyra eða eitthvað.“
Sá þriðji skrifar: „Þetta eru váleg tíðindi.Það er ekki hægt að bjóða fólki uppá þetta öryggisleysi.Hvert á fólka fara svosem á þessum dauðans óvissutímum og hverjir munu koma í staðinn? Það er stóra spurningin.“
Ein íbúi á Ásbrú segir að Heimstaden sé að senda uppsagnabréf til þeirra sem búa í blönduðum blokkum. „Ég hafði samband og fékk mjög loðin svör, svöruðu að núna séu allir í blönduðum blokkum að fá og gætu ekki svarað verðandi heilar blokkir en sögðu að það kæmi að uppsögn þar líka ef enginn stekkur inn verðandi fjárfestingu. Þetta er bara komið þangað að ég get ekki lifað í óvissu og mun finna mér annað heimili.“