Hneykslismál í kringum Clarence Thomas Hæstaréttardómara hafa grafið enn frekar undan tiltrú Bandaríkjamanna á Hæstarétti, sem löngum var sá hluti ríkisvaldsins sem landsmenn treystu best. En skipan rammra íhaldsmanna í réttinn, dómar hans sem vinda ofan af mannréttindavernd kvenna og minnihlutahópa og nú spillingarmál tengd Thomas hafa haft þær afleiðingar að minnihluti Bandaríkjamanna treystir Hæstarétti.
Clarence Thomas hefur þegið allskyns gjafir og sporslur frá Harlan Crow, auðkýfingi frá Texas og miklum áhrifamanni í hreyfingu íhaldsmanna. Crow hefur kostað ferðalög og frí Thomas, látið mála af honum málverk, styrkt aðra til að heiðra hann og byggt hús fyrir móður hans. Þessar gjafir ná yfir langt tímabil. Ef Thomas væri þingmaður eða forseti yrði hann líklega að segja af sér, en þar sem hann er skipaður til æviloka þarf hann ekki að axla neina ábyrgð. Situr enn í Hæstarétti og dregur undan trausti landsmanna á réttinum. Eina leiðin til að losna við hann er að tveir þriðju hlutar öldungadeildarinnar kalli til baka skipun hans. Það er óhugsandi í dag, í stjórnmálakúltúr þar sem andstæðar fylkingar ná núorðið ekki saman um eitt né neitt.
Þessi pólun Bandarískra stjórnmála hefur dregið úr trausti landsmanna á stjórnvöldum og ríkisvaldi. Í hvert sinn eru fylgjendur stjórnmálaflokks forsetans jafn ánægðir með sinn mann og áður, en traust óháðra hefur minnkað mikið á þessari öld og traust fylgjenda andstæðs flokks hrunið. Og þá skiptir engu hver gegnir embætti. Demókratar hafa sömu andstyggð á framkvæmdavaldi forseta Repúblikana og Repúblikana fyrirlíta ríkisstjórn Demókrata.
Demókratar eru þannig jafn ánægðir með stjórn Joe Biden og þeir voru með Bill Clinton, 87 og 86%. Ánægja óháðra hefur hins vegar fallið, var 61% á Clinton-tímanum en 41% hjá Biden. En gleði Repúblikana með ríkisstjórn forseta Demókrata hefur fallið enn meir, úr 40% niður í 7%.
Og afstaðan til þingsins hefur fallið með sama hætti. Á tímum Clinton treystu 71% Repúblikana þinginu en aðeins 24% í dag. 54% óháðra treystu þinginu á tímum Clinton en aðeins 36% óháðra.
Íslendingar fá kannski hroll við að horfa á þessa þróun, því ríkisstjórn og þing á Íslandi nýtur ekki meira traust en sambærilegar stofnanir vestanhafs. Í nýrri mælingu Gallup mældist traust landsmanna allra til ríkisstjórnar Katrínar 39% og traust á Alþingi 25%.
En þessi pólun sást ekki á afstöðu Bandaríkjanna til Hæstaréttar fyrr en fyrir skömmu. Á Clinton-árunum var traust á Hæstarétti 84% meðal Repúblikana, 78% meðal óháðra og 74% meðal Demókrata. Munurinn endurspeglaði almennt meira traust á stofnunum samfélagsins meðal íhaldsmanna en þeirra sem vildu breyta samfélaginu og hnika því til. Í dag hefur traust Repúblikana fallið niður í 67%, óháðra niður í 46% og Demókrata í 25%.
Almenn tiltrú Bandaríkjamanna á að Hæstiréttur geti haldið jafnvægi í samfélaginu er að falla, er eiginlega fallin. Þeir sem treysta réttinum eru þau sem treysta honum til að þrýsta fram sínum pólitísku skoðunum. Aðrir líta á hann sem afl sem er líklegt til að breyta samfélaginu til hins verra, þvert á þá stefnu sem þeir myndu vilja sjá.
Tiltrúin byrjaði að falla hratt við skipan Donalds Trump á nokkrum erki-íhaldsmönnum í réttinn. Féll enn frekar þegar hin íhaldssami réttur felldi úr gildi fyrri úrskurð um rétt til fóstureyðinga, Roe vs. Rade. Og er nú í frjálsu falli vegna hneykslismála Clarence Thomas.
Á eftirstríðsárunum, á tímum samfélagssáttmála sem byggði á þeirri hugmynd að verkefni ríkisvaldsins væri að auka jöfnuð og réttindi almennings, ríkti almennt mikið traust á stjórnvöldum í Bandaríkjunum; löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið. En með samfélagssáttmála nýfrjálshyggjunnar, sem byggir á að auka völd hinna ríku og skrúfa ofan af sigrum mannréttindahreyfinga síðustu aldar, hefur traustið á stofnanir samfélagsins fallið í takt við aukinn ójöfnuð, vaxandi ægivalds hinna ríku og niðurbrot þeirra kerfa sem verja átti fólk gegn bjargarleysi og fátækt. Þessi þróun er hrópandi í Bandaríkjunum, en hana má sjá um nánast öll Vesturlönd.
Og ekki síst á Íslandi. Almenningur á Íslandi hefur í reynd minna raust á framkvæmda- og löggjafarvaldið en Bandaríkjamenn og miklu minna en nágrannaþjóðirnar í Evrópu.
Traust Bandaríkjamanna á framkvæmdavaldið var 43% í nýjustu mælingu Gallup en ríkisstjórn Íslands nýtur traust 39% landsmanna. 38% Bandaríkjamanna treysta þinginu en 25% Íslendinga. 47% Bandaríkjamanna treysta dómskerfinu en aðeins 37% Íslendinga.
Ef Bandaríkin er að falla sem virkt lýðræðisríki þá má segja að Ísland sé svo sem gott fallið. Og mun falla enn, stefna stjórnvalda er í dag sem mörg undanfarin ár rekin þvert á vilja afgerandi meirihluta landsmanna.
Myndin er af Clarence Thomas.