Tími sýndar-lagfæringa er liðinn

Verkalýðsmál 23. maí 2023

„Verkalýðshreyfingin þarf að sameinast um alvöru kröfur á stjórnvöld um að breyta kerfum húsnæðisstuðnings og barnabóta og bæta stuðninginn svo um munar. Langtíma hnignun þessara kerfa þarf að snúa við,“ segir Stefán Ólafssonar, prófessor og starfsmaður Eflingar.

„Tími sýndar-lagfæringa er liðinn. Vandi láglaunafólks magnast frá mánuði til mánaðar,“ skrifar hann í grein á Vísi.

Þar bendir Stefán á að verðbólga sé mjög áhrifarík leið til að rýra kaupmátt launafólks, einkum þegar kjarasamningar eru án nokkurra verðtrygginga, eins og nú er. Vaxtahækkanir Seðlabankans séu líka til þess fallnar að draga niður kaupmátt almennings, sérstaklega þeirra sem skulda mest, sem alla jafna eru þeir tekjulægri og þeir sem yngri eru. Verðbólga og vaxtahækkanir hafa þannig mikil áhrif á afkomu almennings.

Stefán rekur tímabil bættrar afkomu fyrir stuttu til lífskjarasamningana og lágra vaxta:

„Í kjölfar lífskjarasamninganna 2019 batnaði kaupmáttur launafólks til ársins 2021. Á sama tíma lækkuðu vextir seðlabankans. Það bætti afkomuna líka hjá þeim sem skulda, sem er þorri launafólks,“ skrifar hann.

En í seinna hluta cóvid og eftir það hefur staðan versnað hratt:

„Eftir að verðhækkanir fyrirtækja tóku að aukast á seinni hluta ársins 2021 – og þó mest á árinu 2022 og inn á 2023 – þyngdist afkoman hjá launafólki. Erfiðara varð að ná endum saman. Á sama tíma hefur hagnaður fyrirtækja aukist upp í methæðir,“ skrifar Stefán.

Hann dregur síðan fram mynd sem sýnir hvernig afkoma heimila var að léttast eftir endurreisnina í kjölfar hrunsins, einkum frá 2014 til 2021. Hlutfall heimila sem áttu erfitt með að ná endum saman fór lækkandi og varð lægst árið 2021. Síðan þá hefur vandinn stóraukist.

Hlutfall þeirra sem áttu erfitt með að ná endum saman fór úr um 25% árið 2021 upp í um 43% á fyrri hluta árs 2023 (rauðu súlurnar á myndinni). Stefán segir að staða láglaunafólks hafi versnað mun meira en þetta. Kjarasamningar og aðgerðir stjórnvalda síðastliðinn vetur hafi hvergi nærri dugað til að verja kaupmáttinn.

„Breytingin hefur verið gríðarlega ör frá 2021. Raunar er stígandinn í afkomuvanda heimilanna nálægt því sem varð í kjölfar fjármálahrunsins 2008, eins og myndin sýnir,“ skrifar Stefán. „Erfiðleikarnir hafa þó ekki enn náð sömu hæðum og varð í kjölfar hrunsins, en stefna í þá átt að óbreyttu.“

Stefán rekur síðan mun á aðgerðum stjórnvalda eftir Hrun vegna afkomuvanda heimilanna og nú:

„Eftir hrunið beittu stjórnvöld sér af mun meiri þunga gegn áhrifum erfiðleikanna á afkomu lægri tekjuhópa og eignaminna fólks en nú hefur verið gert,“ segir hann.

„Mildandi aðgerðir fyrir lágtekjuhópana í desember síðastliðnum, sem stjórnvöld guma mikið af, voru lítið annað en hluti af lagfæringum sem hefði átt að vera búið að gera árlega vegna verðbreytinga og launaþróunar, til að viðhalda vægi velferðarkerfisins.“

Stefán segir að ækkun barnabóta hafi hvergi nærri dugað til að halda verðgildi þeirra sem hafði verið fyrir kjarasamningana 2019. Nú rýrni verðgildi bótanna frá mánuði til mánaðar. „Að kalla slíkt fúsk kjarabætur, eins og ríkisstjórnin hefur gert, er vægast sagt blekkjandi,“ segir Stefán.

Hann segir þörfina fyrir alvöru mótvægisaðgerðir til varnar tekjulægri og eignaminni heimilum augljóslega mun meiri nú en verið hefur. Einnig þurfi að byggja meira, en hár vaxtakostnaður er nú að draga verulega úr nýbyggingum íbúða.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí