Umhverfissóðar ógna lífríki í Hörgá

Jarðýtur og skurðgröfur í farvegi Hörgár þann 5. maí 2023

Jarðýtur og skurðgröfur á vegum fyrirtækisins Skútaberg hófu um miðjan apríl óhóflegt malarnám í farvegi Hörgár á norðurlandi, sem býr yfir stofnum af sjóbleikju og urriða. „Aðfarirnar eru slíkar að öllu hugsandi fólki hlýtur að blöskra,“ skrifar formaður náttúruverndarsamtakanna Náttúrugriða en samtökin hafa kært leyfisveitingar vegna framkvæmdanna til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í skýrslu frá Veiðimálastofnun árið 2011 kom fram að botn árinnar á þessum stað er einstaklega hentugur fyrir bleikjuseiði.

Þetta kemur fram í grein sem Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur og formaður Náttúrugriða birtir á vef Vikublaðsins. Hörgá er þriðja mesta vatnsfall Eyjafjarðar og býr yfir fiskistofnum af sjóbleikju og urriða. Malartekja hefur verið stunduð í gegnum tíðina úr farvegi Hörgár en slík efnistaka úr vatnsföllum er vandmeðfarin. Yfirstandandi aðgerðir á vegum Skútabergs eru afar stórtækar eins og kemur fram á myndinni með þessari grein sem tekin var á vettvangi í byrjun maí 2023.

Verktakafyrirtækið Skútaberg á Akureyri hét áður Arnarfell en sá rekstur var á annarri kennitölu. Arnarfell sá meðal annars um hluta af framkvæmdum Landsvirkjunar við Kárahnjúkavirkjun en Vinnumálastofnun stóð fyrir vinnustöðvun árið 2007 hjá undirverktökum Arnarfells við virkjanaframkvæmdirnar þegar grunur var um að erlendum verkamönnum hafði ekki verið greitt eftir íslenskum kjarasamningum. Áður hefur verið vakin athygli á umgengni Skútabergs á jörð eyðibýlsins Skúta í Hörgárdal. Leifur Þorkelsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, lét hafa eftir sér í viðtali við Vikublaðið að „ruslahaugur verður aldrei neitt annað en ruslahaugur“ varðandi umgengni fyrirtækisins og flutning Skútabergs á lausamunum frá lóð sinni á Akureyri að lóð fyrirtækisins í Hörgárdal. Tveir af bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fóru í fyrirtækjaheimsókn til Skútabergs árið 2019, létu taka myndir af sér brosandi með eigendum fyrirtækisins sem þær kölluðu „stórhuga“ og með „framsæknar hugmyndir.“

Núverandi malartekja hófst um miðjan apríl síðastliðinn en þá mættu jarðýtur og skurðgröfur á vegum Skútabergs á bakka Hörgár og tóku til við að róta í ánni og moka upp stórum malarhaugum í miðjum árfarveginum. Af myndum á vettvangi má sjá að ánni hefur verið skipt í tvo farvegi með aðförum vinnuvélanna. Skýrsla Veiðimálastofnunar frá 2011 taldi þetta svæði árinnar hafa einstaklega hentuga botngerð fyrir bleikjuseiði.

Snæbjörn Guðmundsson, formaður náttúruverndarsamtakanna Náttúrugriða, bendir á í grein sinni að þetta rót í árfarveginum muni augljóslega raska jafnvægi farvegarins og hafa ófyrirsjáanleg áhrif á streymi og lífríki árinnar á stóru svæði. Þá virðist ólöglega hafa verið staðið að leyfum sem liggja til grundvallar framkvæmdinni og framkvæmdin ólík því sem lagt var upp með í upphaflegu umhverfismati frá 2015. Náttúrugrið hafa kært leyfisveitingarnar til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og farið fram á tafarlausa stöðvun á efnistöku úr farvegi Hörgár.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí