Bára Halldórsdóttir, sem tók upp drykkjuröfl Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, við aðra þingmenn flokksins á Klaustur bar, tekur Sigmund til bæna á Twitter. Fyrr í dag birti mbl.is grein þar sem Sigmundur lætur eins og Klaustursmálið hafi verið samsæri. Sigmundur gefur í skyn að einhver hafi skipulagt „hlerunarmálið“, líkt og hann vill kalla atvikið á barnum, en neitar að nafngreina þann huldumann.
Bára birtir á Twitter yfirlit yfir helsta ósóma sem Klaustursmenn létu frá sér meðan þeir sátu á sumbli. Bára tekur þetta saman í tíu punktum, en þá má lesa hér fyrir neðan.
1/ hroki valdastéttarinnar. „Þótt við nánast öskrum dónaskap og spillingaspjalli yfir fjölfarin bar, ætti það ekki að hafa neinar afleiðingar fyrir okkur sem stjórnmálamenn“
2/ kvenfyrirlitning. „Þessi gella var bara kosin af því að hún var nógu sæt, hin er skrokkur sem passar utan um typpið á mér, svo ekki sé minnst á þessa sem er sko meetoo áhætta“
3/ forréttindablinda. „Viljum sko enga öryrkja í sveitastjórn eða á þing. Ekkert sem það pakk hefur upp á dekk að gera“
4/ fornaldar brandarar. „Hommar, hahaha!“
5/ fötlunar fordómar. „Freyja Eyja“
6/ spilling. „Ég reddaði þessum og fæ sko mitt fyrir“ (sjá Karl Gauti í stöðu lögreglustjóra Vestmannaeyja)
7/ karlaklíkan. „Vertu nú ekki að skemma skemmtunina“ Anna Kolbrún skaut einu sinni inní eitthvað til að draga úr gallsanum, en var skotin niður af karli við borðið.
8/ samfélagsstaðan. Ef ég og aðrir hefðum ekki upplifað umræðuefnin á eigin skinni áður, hefði þetta ekki verið upptökuvert. Ég þekkti orðræðuna sjálfkrafa.
9/ Sigmundur Davíð og hin. Enginn neyddi neinn til að segja neitt þarna inni. Þau völdu umræðuefnið og staðinn.
10/ Sigmundur Davíð, Karl Gauti, Anna Kolbrún, Bergþór, Gunnar Bragi og Ólafur. Þau völdu umræðuefnið og staðsetninguna. Ekkert breytir því, ÞAÐ er aðalatriðið, ekki ég eða einhverjar samsæriskenningar. Efni samtalsins á alltaf að vera aðalfréttin.