Ég á mér draum um að við vöknum upp af martröðinni sem kvótakerfið er

Sjávarútvegur 4. jún 2023

„Ég á mér draum um að fljótlega munum við á sjómannadaginn fagna því að hafa endurheimt fiskimiðin. Eftir að hafa náð þeim úr höndum þeirra sem söluðu þau undir sig. Rændu þeim frá okkur,“ byrjar Þörstur Leó Gunnarsson, leikari og sjómaður, ávarp óþekka sjómannsins á sjómannadeginum 2023.

„Það er svo grátlegt að svona hafi farið,“ heldur hann áfram. „Að eftir þorskastríðin hafi aðeins örfáar auðugar fjölskyldur eignast fiskimiðin. Fiskinn sem við börðumst fyrir að ná. Landhelgina sem við unnum í stríði.

Baráttan var háð svo arðurinn af fiskimiðunum yrði grunnurinn að sterku samfélagi, hringinn í kringum landið. Enginn barðist svo arðurinn rynni í vasa örfárra fjölskyldna. Og það getur ekki staðist til lengdar. Við hljótum að rísa upp! Og endurheimta það sem við eigum.

Ég á mér sama draum og foreldrar mínir og fyrri kynslóðir. Að við nýtum auðlindir þessa kalda napra lands og úfins sjávar í sameiningu. Að við njótum sameiginlega arðsins af þessum auð. Að orkan í fallvötnunum, að hitinn undir fótum okkar, að fegurð landsins, vindurinn og sjávarföllin og fiskurinn í sjónum verði nýttur til að skapa hér gott samfélag; réttlátt, öflugt og fagurt. Þetta er arfleið okkar allra, gjöf sem við eigum saman. Og þetta er draumur kynslóðanna. Að á Íslandi sé hægt að byggja upp gott og öflugt samfélag þar sem öllum líður vel.

Ég upplifi þennan draum alla daga. Um samfélag þar sem enginn fer svangur að sofa. Þar sem enginn er andvaka af áhyggjum yfir afkomu sinni. Þar sem engin móðir grætur sig í svefn yfir að geta ekki veitt barni sínu það sem það átti svo sannarlega skilið. Þar sem enginn faðir örvæntir yfir að geta ekki bjargað börnum sínum frá leigumarkaðnum. Þar sem ekkert foreldri þarf að fórna tíma sínum með börnunum svo það geti mætt í aðra vinnu og þriðju vinnuna til að geta borgað reikningana. Svo fjölskyldan verði ekki borin út.

Ég á mér draum um að við nýtum auðlindirnar okkar, auðinn sem við eigum sameiginlega, til að tryggja að enginn sé heimilislaus. Að engin fjölskylda þurfi að flytja árlega, milli skólahverfa með börnin sín, milli bæjarfélaga í leit að ódýrari leigu, út í iðnaðarhverfin, ofan í kolakjallara. Eins og flóttafólk í eigin landi í leit að skjóli.

Ég á mér draum um að enginn þurfi að neita sér um læknisþjónustu. Að enginn þurfi að neita sér sér um menntun. Að á alla sé hlustað og að allir séu séðir. Að okkur auðnist að búa til samfélag þar sem allir fái notið sín og allir séu virtir. Að ég sé þér sem bróðir og þú mér sem systir. Að við séum sterk saman og sterk hvert um sig. Að öfugt og gott samfélag geri okkur að góðum manneskjum, góðum borgurum og góðum vinum.

Við erum of fá til að hér vaxi upp auðstétt sem telur sig yfir okkur hafin. Ísland er of lítið fyrir tvær þjóðir. Hér hefur aldrei verið neinn aðall, engin erfðastétt. Við skulum ekki fara að búa hana til núna, með því að gefa fáeinum kvótagreifum fiskimiðin. Og láta fiskinn síðan ganga í erfðir til kvótaprinsa og -prinsessa.

Það var ekki til þess sem var barist. Fyrir sjálfstæði landsins og fyrir auðlindum hafsins. Að við sitjum sem hnípin þjóð í verbúð Samherja, þar sem allur auðurinn, og þar með öll völdin, eru í höndum fárra. Sem hafa auðgast af auðlindum okkar. Sem við börðumst fyrir. Til að byggja hér upp gott samfélag fyrir alla. Ekki bara suma. 

Ég held að íslenski draumurinn, draumur kynslóðanna um fullveldi, sjálfræði og efnahagslegt sjálfstæði, hafi breyst í martröð. Það er eins og bölvun hvíli á auðlindunum okkar. Sá sem nær að sölsa þær undir sig verður svartur á sálinni og auður hans veitir honum ekki neina fró. Því meira sem hann eignast, því meira vill hann fá. Arðurinn kveikir ekki líf heldur myrkur, ógn og illsku. 

Það er ekki fyrr en við nýtum auðlindirnar í þágu okkar allra, og fyrir samfélagið allt, sem þær verða gjöfular og kveikja líf. Ljós, von og blessun. Styrkja samfélagið á millum okkar og okkur sjálf í leiðinni. Það sem við eigum sameiginlega eigum við að eiga öll og ekkert umfram annan. Þetta er sameign okkar.

Sem við höfum verið rænd.

Ég á mér þann draum að við vöknum upp af þessari martröð sem kvótakerfið hefur leitt yfir okkur. Að okkur takist að rísa upp og endurheimta það sem við eigum. Að við látum draum kynslóðanna rætast, um að auðlindir lands og sjávar verði nýttar til að auðga samfélagið allt og lyfta upp öllum innan þess. En ekki örfáum.

Og í dag dreymir mig um þennan dag. Um sjómannadag þar sem við fögnum því saman að hafa endurheimt fiskimiðin okkar. Þann dag munum við ekki verða sem gestir í hátíðarhöldum Samherja eða Brims. Þá verður okkur ekki boðið til veislu ræningjanna að dást af ránsfengnum. Þann dag munum við ganga eftir okkar bryggju og horfa á okkar skip, sjálfráða og fjárhagslega sjálfstæð þjóð í gjöfulu landi, þar sem okkur hefur tekist að byggja upp gott og réttlátt samfélag. Þar sem enginn fer svangur að sofa og enginn kvíðir morgundeginum.

Þann dag ætla ég að lifa og fagna með ykkur. Sá dagur verður gleðilegur sjómannadagur. Megi hann koma sem fyrst.“

Hér má sjá og heyra Þröst fara með ávarpið:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí