Framsókn misst helminginn af kjósendum sínum

Framsóknarflokkurinn mælist með 8,8% í könnun Maskínu og hefur misst næstum annan hvern kjósenda frá sér sem kaus flokkinn haustið 2021, þegar flokkurinn bauð sig fram undir slagorðinu: Er ekki bara best að kjósa Framsókn? Fylgið núna er undir því sem flokkurinn fékk í kosningunum 2017, fyrstu kosningarnar eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gekk úr flokknum og stofnaði Miðflokkinn.

Framsókn leiðir fall ríkisstjórnarflokkanna. Samanlagt hefur meira en þriðjungur þeirra sem kusu þessa flokka 2021 snúist gegn þeim. Tveir af hverjum fimm kjósendum Vg hafa snúist gegn flokknum og einn af hverjum fjórum kjósendum Sjálfstæðisflokksins hefur gefist upp.

Maskína birtir mynd af fylgishruni ríkisstjórnarflokkanna. Efst er nýjasta könnunin, tíminn líður aftur á bak eftir því sem þið færið ykkur neðar.

Ríkisstjórn sem byrjaði kjörtímabilið með stuðningi rúms helmings kjósenda, 54,3%, heldur nú eftir 34,2% kjósendum. Hún er fallin niður í afgerandi minnihluta og nýtur lítils trausts. Ef niðurstaða kosninga yrði í takt við niðurstöður þessarar könnunar myndu ríkisstjórnarflokkarnir tapa samanlagt um 15-16 þingmönnum.

Ríkisstjórnin er komin í vörn. Og hún birtist þannig að hver flokkur reynir að skerpa á sérstöðu sinni fremur en að þeir styrki samstöðuna sín á milli. Það kom vel fram í samtali Heimis Más Pétursson fréttamanns Stöðvar 2 á Pallborði Vísis við formennina þrjá. Þar reyndu þeir að gera þetta hvort tveggja, sýna samstöðu en skerpa samt sérstöðu hvers flokks. Niðurstaðan varð sú að áhorfendur voru engu nær um hvert þessi ríkisstjórn er að fara.

Fylgistap ríkisstjórnarinnar færist mest yfir á Samfylkinguna sem mælist með 27,2% í júní, það sama og í maí. Þetta er fyrsta könnunin í næstum ár sem fylgi Samfylkingarinnar hefur ekki risið milli mánaða. Aðrir flokkar fá minna af fylgistapinu, en allir eitthvað nema Flokkur fólksins sem hefur misst frá sér um fjórðung af fylginu frá kosningum.

Mynd Maskínu af niðurstöðunum eru þessar. Gráu súlurnar eru lengst til vinsti niðurstöður kosninganna 2021 og síðan könnun Maskínu í apríl og maí. Lituðu súlurnar eru niðurstöður þessarar könnunar:

Niðurstöður könnunar voru þessar í tölum (innan sviga er breyting frá kosningum):

Ríkisstjórn:
Sjálfstæðisflokkur: 18,5% (-5,9 prósentur)
Framsóknarflokkur: 8,8% (-8,5 prósentur)
Vg: 7,0% (-5,6 prósentur)
Ríkisstjórn alls: 34,3% (-20,0 prósentur)

Hin svokallaða frjálslynda miðja:
Samfylkingin: 27,3% (+17,0 prósentur)
Píratar: 11,3% (+2,7 prósentur)
Viðreisn: 9,7% (+1,4 prósentur)
Hin svokallaða frjálslynda miðja: 48,2% (+21,4 prósentur)

Ný-hægri andstaðan:
Miðflokkurinn: 6,3% (+0,9 prósentur)
Flokkur fólksins: 6,6% (-2,2 prósentur)
Ný-hægri andstaðan: 12,9% (-1,3 prósentur)

Stjórnarandstaða utan þings:
Sósíalistaflokkurinn: 4,7% (+0,6 prósentur)

Könnunin fór fram dagana 1. til 22. júní 2023 og voru 1.691 svarandi sem tók afstöðu til flokks.

Myndin með fréttinni er úr auglýsingu Framsóknar fyrir síðustu kosningar: Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí