Ólafur Margeirsson hagfræðingur segir að samdráttur í íbúðafjárfestingu sé talsverður þrátt fyrir mikinn hagvöxt. Hann segir að þetta muni lengja þann tíma sem það tekur að losna við verðbólguna.
„Það sárasta við nýlegar og of sterkar hagvaxtartölur, sem ýta undir að Seðlabankinn hækki vexti frekar en ekki (því hann vill kæla hagkerfið), er að sjá hvað samdrátturinn í íbúðafjárfestingu er mikill og snarpur,“ segir Ólafur í pistli sem hann birtir á Facebook.
Hann segir þetta hafa talsverð áhrif. „Þarna er hagkerfið að missa af miklu: ódýrara húsnæði, lægri verðbólgu, lægri vöxtum, sjálfbærari vexti á lífsgæðum og auknum pólitískum stöðugleika svo nokkuð sé nefnt,“ segir Ólafur.
Hann segir að háir stýrivextir eins og að veiða flugu með fallbyssu. „Annars sýnir þetta ágætlega hvað vaxtastýringartólið er ónákvæmt tól. Hærri vextir munu að lokum kæla hagkerfið niður og þar með verðbólgu. En hærri vextir draga á sama tíma úr framleiðslu á því sem skortur er á (húsnæði) og lengja þannig tímann sem það tekur hagkerfið að losna við verðbólguþrýstinginn. Vextir verða bæði hærri og haldast hærri lengur en ella. Betra væri ef Seðlabankinn væri með sértækari aðgerðir, eins og t.d. að ýta undir að bankar lánuðu meira til íbúðauppbyggingar og minna til íbúðalána.“