Háskólinn mismunar fötluðu fólki með lögum gegn smálánum

Háskóli Íslands notar greiðslukortakerfi sem kemur í veg fyrir að fatlað fólk og tekjulágir geti skipt skólagjöldum sínum upp í fleiri en eina greiðslu. Skrifstofustjóri nemendaskrár segir lög gegn smálánum hafa komið í veg fyrir að hægt sé að skipta greiðslum í lægri upphæð en 60 þúsund krónur.

Fötlunarfordómar ættu hvergi að líðast og kannski allra síst innan æðstu menntastofnunar landsins sem kennir fög eins og fötlunarfræði. En sú virðist vera raunin ef marka má frásögn einstæðrar fatlaðrar móður sem Samstöðin ræddi við. Hún stundar nám við Háskóla Íslands en hennar eina tekjulind er lífeyrir frá Tryggingastofnun.

Háskólinn veitir fötluðum nemendum á örorku- og endurhæfingarlífeyri afslátt af skólagjöldum en eftir sem áður er fólki gert að greiða þau sem 55 þúsund króna eingreiðslu. 55 þúsund krónur geta numið um fimmtungi af strípuðum örorkulífeyri og munar því um minna.

Viðmælandi Samstöðvarinnar bað skrifstofu Háskólans um leyfi til að greiða gjaldið með því að skipta greiðslunni í tvennt en því var ekki við komið. Þá bað hún um leyfi til að koma með tvö mismunandi greiðslukort og fá að skipta greiðslunni þannig en það var heldur ekki samþykkt.

„Vonandi verður þetta ekki til þess að þú getir ekki skráð þig í námið” var svarið sem hún fékk.

Eftir að hafa samband við skrifstofustjóra nemendaskrár, Kristínu Jónasdóttur, vegna málsins fékk viðmælandi okkar svar í tölvupósti þar sem Kristín reynir að útskýra í löngu máli hvers vegna Valitor-Rapyd, kerfið sem háskólinn notar, bjóði ekki upp á að skipta greiðslunum.

Mátti skilja svarið sem svo að ástæðan væri alls kyns lagasetningar gegn smálánafyrirtækjum, stýrivaxtahækkanir og fleira.

„Það sem við höfum boðið þeim nemendum sem hafa heimild til að greiða lægra gjaldið og óska eftir því að dreifa greiðslu gjaldsins er að sækja um lán til að dreifa greiðslu á fullu skrásetningargjaldi kr. 75.000. Þau sem þetta gera óska síðan eftir endurgreiðslu eða styrk frá Nemendaskrá að upphæð kr. 20.000 og höfum við alltaf orðið við því.“

„Mér þykir þetta leitt en það að greiða tekjuminni stúdentum mismuninn á fullu og lægra gjaldi er það úrræði sem Nemendaskrá hefur yfir að ráða” segir Kristín enn fremur í póstinum.

Niðurstaðan er sú að til að fá afslátt af skólagjöldum hjá Hí og fá að greiða þau í tvennu lagi er að sækja um lán fyrir fullu gjaldi, leggja út fyrir því en sækja svo um endurgreiðslu.

Það vekur furðu að fatlaðir nemendur háskólans njóti ekki jafnræðis og þurfi að leggja á sig auka snúninga, leggja út fyrir upphæðinni og eiga í samningum við fjármálafyrirtæki í stað þess að háskólinn sjálfur leysi málið sín megin.

Blaðamaður ræddi við Margréti Lilju Arnheiðar- og Aðalsteinsdóttur formann Sjálfsbjargar vegna málsins og segist hún ekki efast um að fleiri séu í svipaðri stöðu. „Þetta er klár mismunun gegn tekjuminna fólki sem því miður er að stórum hluta fatlað fólk/öryrkjar. Fólk er fast í fátæktargildru örorkunnar og menntun er ein af fáum leiðum úr henni en hún stendur bara örlitlum minnihluta til boða,“ segir Margrét.

Málið er einnig á borði Sunnu Elvíru Þorkelsdóttur lögfræðings hjá ÖBÍ og starfsmanns málefnahóps bandalagsins um menntamál.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí