„Upplýsa þarf nú að fullu um hvernig fjármálaráðherra stóð að sölunni á Íslandsbanka. Það verður einungis gert með rannsóknarnefnd Alþingis. Ljóst er að ekki einungis stjórn og bankastjóri þurfa að víkja heldur einnig fjármálaráðherra því hann ber fulla ábyrgð á sölunni,“ skrifar Eyjólfur Ármannsson þingmaður Flokks fólksins í Mogga dagsins.
Eyjólfur fer yfir skýrslu fjármálaeftirlitsins og vísar svo til eigin reynslu: „Ég hef unnið í FME, efnahagsbrotadeild og hjá tveimur norrænum stórbönkum og aldrei kynnst öðru eins. FME segir í sáttinni að framkvæmd Íslandsbanka hafi verið áfátt í flestum skrefum útboðsins og fól hún í sér víðtæk og alvarleg brot bankans á skyldum samkvæmt lögum. Slíkir annmarkar bendi til þess að áhættumenning og stjórnarhættir bankans hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru með lögum og reglum, né innri reglum og verklagi. FME telur að stjórn og bankastjóri hafi ekki tryggt að bankinn starfaði í samræmi við lög sem um starfsemina gilda eða að innri reglum bankans hafi verið fylgt. Þá hafi stjórn og bankastjóri ekki innleitt stjórnarhætti og innra eftirlit sem tryggir skilvirka og varfærna stjórnun,“ skrifar Eyjólfur.
En Eyjólfur vill að þáttur fjármálaráðherra verði líka rannsakaður, segir að Alþingi hafi veitt fjármálaráðherra heimild til að selja eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka með lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum frá 2012 og sérstakri heimild í fjárlögum fyrir árið 2022. Á hverjum tíma fer Bankasýslan með eignarhlut ríkisins í bönkunum. Það felst í eftirliti með framkvæmd eigendastefnu ríkisins og að fara með atkvæði ríkissjóðs á hluthafafundum. Þannig er sköpuð armslengd frá fjármálaráðherra sem handhafa hlutbréfa ríkisins í Íslandsbanka. Armslengdin nær alls ekki til sölu á eignarhluta ríkisins, enda seldi fjármálaráðherra hlutabréfin í Íslandsbanka, enginn annar.
„Á ábyrgð fjármálaráðherra var að tryggja að allur undirbúningur á sölunni væri þannig að lög yrðu ekki brotin og ekki síst að hann sem fjármálaráðherra bryti ekki lög sem seljandi ríkisbankans. Hvorugt var gert,“ skrifar Eyjólfur. „Fjármálaráðherra stóð þannig að sölunni að hann seldi föður sínum hlut og vissi ekki hverjum hann var að selja, að eigin sögn. Ekki virtist gerð krafa um upplýsingar um raunverulega eigendur þeirra félaga sem keyptu líkt, og lög kveða á um. Íbúðareiganda, sem selur íbúð sína, ber lagaskylda til að fá upplýsingar um raunverulega eigendur félaga sem vilja kaupa íbúð hans.“