Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að fyrirhuguð sala á hlut almennings í Íslandsbanka sé „gullið tækifæri“ til þess að draga hluta almennings inn í Kauphöllina. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag segir Óli Björn ekki óraunsætt að fjölga þeim Íslendingum sem leggja fé sitt á hættu í Kauphöllinni um helming á þessu ári.
„Í aðdraganda að sölu hlutabréfanna í Íslandsbanka hefur ríkisstjórnin gullið tækifæri til að stuðla að víðtækri þátttöku almennings í atvinnulífinu með kaupum á skráðum hlutabréfum. Það er langt í frá óraunsætt að á þessu og næsta ári fjölgi einstaklingum sem eiga hlutabréf í fyrirtækjum sem eru skráð á hlutabréfamarkaði um allt að 25 þúsund. Með öðrum orðum: Að fjöldi einstaklinga sem eiga hlutabréf verði milli 50 og 60 þúsund áður en árið 2025 er úti. Og þá er hægt að setja markið enn hærra,“ segir Óli Björn.
Hann lofar í upphafi pistilsins að í þetta sinn verði bankasalan ekki eins vafasöm og hún hefur reynst í hvert skipti sem núverandi ríkisstjórn hefur selt hlut almennings í bönkunum. „Öllum má vera ljóst hve mikilvægt það er að vel takist til við sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka. Fyrir ríkisstjórnina og stjórnarflokkana er það pólitískt nauðsynlegt að framkvæmd sölunnar verði hnökralaus. Fyrir þróun fjármálamarkaðarins skiptir miklu að salan verði til að efla traust almennings á fjármálamarkaðinum í heild sinni og á hlutabréfamarkaðinum sérstaklega,“ segir Óli Björn.
Hann sér fyrir sér að fjölga þeim sem taka áhættuna í Kauphöllinni með því að bjóða upp á svokallaðan „hlutabréfaafslátt“. Sá afsláttur myndi virka svo að sögn Óla Björns: „Með skattalegum ívilnunum, þar sem einstaklingum er veitt heimild til að draga frá tekjuskatti kaup á skráðum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og hlutabréfasjóða, opnast möguleikar fyrir launafólk til að byggja enn frekar upp eignastöðu sína. Setja nýja stoð undir eigið fjárhagslegt sjálfstæði.“
Þessi hugmynd Óla Björns virðist þó ekki eiga hljómgrunn hjá öllum í ríkisstjórninni. „Þingmannafrumvörp eiga yfirleitt ekki greiða leið í gegnum þingið – ólíkt stjórnarfrumvörpum. Sé það vilji ríkisstjórnarinnar að stuðla að þátttöku almennings í útboði á bréfum Íslandsbanka og almennt á hlutabréfamarkaðinum, hlýtur innleiðing á almennum hlutabréfaafslætti að verða eitt af forgangsmálum á komandi vetri. Ég hef ástæðu til að ætla að frumvarp þessa efnis njóti stuðnings fleiri en stjórnarþingmanna,“ segir Óli Björn.