Næsta bankasala: Traust er flókið fyrirbæri, segir ráðherra en forgangsatriði að „losa ríkið undan eignarhaldi“

Nú að morgni fimmtudags hefur farið fram æði forvitnilegur fyrirspurnatími á Alþingi, þar sem nýr fjármálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, situr fyrir svörum, ásamt hinum nýja utanríkisráðherra landsins, Bjarna Benediktssyni. Björn Leví Gunnarsson spurði fjármálaráðherra laust undir hádegi hvers vegna ráðherra teldi æskilegt að selja banka í ríkjandi efnahagsástandi. Hann tiltók að ný hagspá Landsbankans búist við 5,3% verðbólgu á næsta ári „og ekki er búist við að ná verðbólgumarkmiðum Seðlabankans á næstu árum.“

Í þessu efnahagsástandi, sagði Björn Leví, „vill Sjálfstæðisflokkurinn selja banka og augljósa spurningin sem þarf að staldra við er: Af hverju? “ „Á bara að selja banka til þess að selja banka, bara af því að það væri gott upp á hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins?“ spurði hann. „Værum við að fá gott verð á næsta ári fyrir hlut ríkisins í Íslandsbanka? Er staðan kannski bara þannig að það þarf að selja banka til að stoppa í eitthvert rekstrargat ríkisins? Það væri frekar ömurlegt, þar sem það er bara hægt að selja banka einu sinni.“

Einu rökin fyrir sölu banka eru „pólitísk skoðun“ ráðherrans

Björn sagði um leið þarft að spyrja „enn stærri spurninga: Hefur ríkisstjórnin umboð til að selja banka á þessu kjörtímabili? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn, ef ekki ríkisstjórnin öll, ekki glatað trausti almennings til að selja banka? Því að sama hvað verður reynt, verður hægt að þvo þennan vantraustsblett af söluferlinu sem formaður Sjálfstæðisflokksins bjó til? Sama hversu miklu gagnsæi og jafnræði verður lofað, því að því var lofað síðast líka, af hverju ætti fólk að trúa að næst verði þetta í lagi?“

Fjármálaráðherra svaraði þessum spurningum ekki efnislega. „Við vitum að staða efnahagsmála er vandasöm,“ sagði hún „en ég get ekki tekið undir það að hún sé slæm. Þessi vandamál sem blasa við okkur eru að uppistöðu til vegna þess að við erum að vaxa svo hratt.“ Þá sagði hún alla „sem selja og kaupa vita að stundum sér maður eftir því að hafa gert það vegna þess hvernig verð þróast eða breytist og það er auðvitað bara einhver óvissa sem er þarna.“ Það sé hins vegar forgangsverkefni að finna leiðir til að halda því verkefni áfram að selja banka.

„Mín pólitíska skoðun,“ sagði Þórdís þó, „er að ríkið eigi ekki að standa í áhætturekstri og vera með mikið eignarhaldið í fjármálastofnunum og bönkum.“ Segja má að þar hafi hún svarað þeirri spurningu þingmannsins játandi, hvort helsta forsenda sölunnar væri hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins.

„Losa ríkið undan eignarhaldi“

Loks lofaði ráðherrann að vanda sig: „Það sem ég get lofað er, óháð því hvernig verkefninu vindur fram, að ég mun gera mitt allra besta og vanda mig eins vel og ég mögulega get, draga þá að sem flesta sem vilja að þetta sé almennilega gert. Ég átta mig algerlega á því hvað er undir.“ Björn Leví þakkaði henni fyrir það en sagði traust vera grundvallaratriði. „Það þarf að leita og afla trausts áður en farið er í frekari sölu. Það er ekki er hægt að afla trausts á meðan eða eftir á miðað við þá stöðu sem við erum komin í út af fyrra klúðri.“

Það var í svari við þeirri seinni ræðu þingmannsins sem Þórdís kynnti til sögunnar hið nýja orðfæri um sölu ríkiseigna til einkaaðila: að losa ríkið undan eignarhaldi. Ráðherrann sagði: „Traust er mjög flókið fyrirbæri og það er hægt að vinna sér inn traust og það er hægt að tapa trausti, það er hægt að sá fræjum sem auka á vantraust og það er hægt að leita leiða til að auka það. Það sem ég get bara sagt er að ég veit að það mun þurfa mikla vinnu þar til fólk finnur fyrir því að það geti treyst því að við séum að losa ríkið undan eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum vegna þess að það er það sem er skynsamlegt að gera.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí